Viðskipti innlent

RÚV uppfærir verðskrána og hættir að rukka fyrir táknið

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það hefur löngum verið hefð á mörgum heimilum að senda og hlusta á jólakveðjur RÚV.
Það hefur löngum verið hefð á mörgum heimilum að senda og hlusta á jólakveðjur RÚV.

Ríkisútvarpið hefur breytt gjaldskránni fyrir svokallaðar Jólakveðjur Ríkisútvarpsins, þar sem kveðjur landsmanna til ástvina eru lesnar upp á Rás 1 að kvöldi 22. desember og alla Þorláksmessu.

Samkvæmt umfjöllun RÚV hafa kveðjurnar verið á bilinu 3 til 4 þúsund talsins síðustu ár.

Tekið er á móti kveðjum á vef Ríkisútvarpsins en í ár hefur forminu verið breytt og fast gjald verið tekið upp fyrir hverja kveðju, í stað þess að greitt sé fyrir hvert tákn.

Það var Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri miðla hjá Símanum, sem vakti athygli á málinu á X/Twitter en hann sagði tíu orða kveðju, lesna tvisvar, hafa kostað 10.366 krónur í fyrra en nú kostaði hún 22.000 krónur.

Um væri að ræða 112 prósent hækkun.

Málið er þó ekki alveg svona einfalt.

Vissulega verður kveðjan mun dýrara fyrir þann sem vill senda tíu orða kveðju, lesna tvisvar, í ár en það var í fyrra. Þá kostaði táknið 68 krónur með virðisaukaskatti en í ár er ekki gefinn kostur á því að spara aurinn með því að vera hnitmiðaður í skilaboðum sínum.

Nú er aðeins boðið upp á staðlað verð óháð tákna- eða orðafjölda en kveðjan má vera allt að 30 orð. Kveðjuhöfundur greiðir 13.000 fyrir einn lestur, 22.000 fyrir tvo lestra, 29.000 fyrir þrjá lestra og 36.000 fyrir fjóra lestra.

Til að spara verður fólk þannig að skera niður fjölda lestra, frekar en fjölda orða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×