Erlent

Egeland kallar að­gerðir Ísraela verstu á­rásir okkar tíma

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Egeland segir söguna munu dæma þau ríki sem sjá Ísraelum fyrir vopnum.
Egeland segir söguna munu dæma þau ríki sem sjá Ísraelum fyrir vopnum. Getty/SOPA/LightRocket/Attila Husejnow

Jan Egeland, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs og einn af arkítektum Oslóarsamkomulagsins sem á sínum tíma tókst að koma á friði á milli Ísraela og Palestínumanna, gagnrýnir harðlega þær þjóðir sem sjá Ísraelsmönnum fyrir vopnum.

Egeland fer nú fyrir hjálparstofnun sem heitir Norska flóttamannaráðið og í yfirlýsingu segir hann að aðgerðir Ísraela nú, þar sem verið sé að jafna Gasa svæðið við jörðu, séu á meðal verstu árása sem gerðar hafi verið á óbreytta borgara á okkar tímum. 

Í yfirlýsingunni fordæmir Egeland árásir Hamas á ísraelska borgara en segir að viðbrögð ísraelskra stjórnvalda sé ekki hægt að líta á sem sjálfsvörn við þeirri árás. 

„Lönd sem sjá Ísraelum fyrir vopnum verða að átta sig á því að þetta mannfall óbreyttra borgara mun að eilífu sverta mannorð þeirra,“ segir Egeland og bætir við að þessi lönd verði að þrýsta nú þegar á um vopnahlé á svæðinu.

Tugir Palestínumanna eru sagðir hafa fallið í loftárásum Ísraela á hús í bænum Deir al-Balah í nótt. 

Bærinn er í miðhluta Gasa og í húsunum bjó fólk sem þegar hafði flúið heimili sín annars staðar.

 Forstjóri spítala á svæðinu segir að 45 lík hafi verið flutt á sjúkrahúsið og blaðamaður AP fréttaveitunnar segist hafa talið 34 lík, þar af sex börn hið minnsta. 

Í suðurhlutanum segja vitni við Reuters að árás hafi verið gerð á skóla í borginni Khan Younis. Hundruð flóttamanna voru í skólanum en óljóst er um fjölda látinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×