Íbúum landsins hefur verið ráðlagt að halda sig heima og eina alþjóðaflugvelli Síerra Leóne hefur verið lokað.
Fregnir hafa borist af mögulegri valdaránstilraun en ekkert hefur verið staðfest í þeim efnum, enn sem komið er. Frá árinu 2020 hafa átta valdarán verið framin af hermönnum í ríkjum Vestur-Afríku.
BBC hefur eftir Julius Maada Bio, forseta, að ástandið sé rólegt en verið sé að leita allra árásarmannanna. Fréttamaður BBC í Freetown segir þó að enn ríki óreiða í Freetown. Hann keyrði til að mynda fram hjá hermönnum á lögreglubíl sem þeir höfðu tekið og framhjá hópi manna sem sungu um að þeir ætluðu að „hreinsa“ Síerra Leóne.
Óljóst er hve mörgum var sleppt úr fangelsi en yfirvöld í Bandaríkjunum áætluðu árið 2019 að minnst tvö þúsund manns sætu þar inni.
Skothríð heyrðist víða
Reuters segir skothríð hafa heyrst í nokkrum hverfum Freetown í morgun í kjölfar árásarinnar á herstöðina.
Fréttaveitan hefur eftir David Taluva, innanríkisráðherra, að árásarmennirnir hafi verið reknir á brott frá herstöðinni en á undanhaldi hafi þeir lagt hald á vopn lögregluþjóna.
Í frétt AFP fréttaveitunnar segir að Síerra Leóne hafi gengið gegnum töluverðan pólitískan óstöðugleika að undanförnu, í kjölfar kosninga sem haldnar voru í júní. Bio vann kosningarnar með rétt rúm 55 prósent atkvæða, sem er það sem þarf til að sleppa við aðra umferð.
Alþjóðlegir eftirlitsaðilar hafa gagnrýnt framkvæmd kosninganna og skort á gagnsæi, auk þess þeir segja ofbeldi og ógnunum hafa verið beitt.
Meðlimir stærsta stjórnarandstöðuflokks landsins, APC, hafa neitað að viðurkenna úrslit kosninganna en forsvarsmenn flokksins og ríkisstjórnarinnar skrifuðu undir samkomulag í október, sem Afríkubandalagið og Efnahagssamband Vestur-Afríkuríkja komu að.
Það fól í sér að APC hætti að sniðganga ríkisstjórnina og tæki þátt í ríkisrekstrinum í skiptum fyrir að yfirvöld hættu að höfða mál gegn og fangelsa meðlimi APC í málum sem forsvarsmenn flokksins sögðu pólitísks eðlis.