Skoðun

Lítum ekki undan

Þorbjörg Þorvaldsdóttir skrifar

Þegar ég var barn og las um helförina velti ég því margoft fyrir mér hvernig fólk gat leyft því að gerast að annað fólk, góðhjartað og velviljað og saklaust, væri myrt með köldu blóði. Ég gat ekki með nokkru móti skilið hvernig það gat gerst. Ætli börnin á Gaza hugsi ekki það sama núna?

Af hverju reynir enginn að bjarga okkur?

Við missum smátt og smátt næmni fyrir hryllingi heimsins. Þetta er varnarviðbragð, leið til að lifa af. Mannréttindi fólksins sem býr á Gaza hafa nú verið brotin svo oft og svo hræðilega og svo opinberlega að við getum varla horft lengur. En við megum ekki líta undan.

Ég hélt sem barn að fólkið sem leit undan hlyti að vera vont fólk. Ég veit núna að það var fólk sem búið var að sannfæra um að líf eins hóps væri ekki jafn mikils virði og þeirra. Tilfinningin fyrir réttu og röngu getur beyglast þegar okkur er talin trú um að samkennd sé flókin. Staðreyndin er sú að góðhjartað og velviljað fólk leyfði fjöldamorð með aðgerðarleysi sínu.

Ef morð á saklausu fólki í Ísrael hreyfa meira við okkur en morð á saklausu fólki í Palestínu, þá þýðir það einfaldlega að afmennskunaráróður ísraelskra stjórnvalda undanfarinna áratuga hefur borið árangur. Fólkið á Gaza býr nú um lífvana líkama barna sinna í fjöldagröfum og vestræn ríki gera ekki neitt.

Þetta er ekki flókið. Ísraelsher er að murka lífið úr saklausu fólki. Ef við lítum undan og gerum ekkert erum við samsek. Slit á stjórnmála- og viðskiptasambandi við Ísrael er það sem við getum gert núna. Við verðum að gera það, svo börnin okkar þurfi ekki að velta því fyrir sér af hverju við gerðum ekkert þegar þjóðarmorð var framið.

Höfundur er verkefnastjóri og bæjarfulltrúi.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×