Menning

Konurnar voru bara eins og eitt af hús­gögnunum

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Ragnheiður Jónsdóttir er viðmælandi í Kúnst. Hún stendur fyrir sýningunni Kosmos/Kaos á Listasafni Árnesinga og hefur alla tíð verið ófemin við að segja sína skoðun í gegnum listsköpun sína.
Ragnheiður Jónsdóttir er viðmælandi í Kúnst. Hún stendur fyrir sýningunni Kosmos/Kaos á Listasafni Árnesinga og hefur alla tíð verið ófemin við að segja sína skoðun í gegnum listsköpun sína. Vísir/Vilhelm

„Ég hef gert myndirnar fyrst og haft áhyggjurnar á eftir. Þegar ég opnaði mína fyrstu sýningu árið 1976 hafði ég áhyggjur af því að ég yrði bara rökkuð niður,“ segir grafíkerinn og kolateiknarinn Ragnheiður Jónsdóttir, sem er gagnrýnin og óhrædd við að segja sína skoðun í listsköpun sinni. Ragnheiður er viðmælandi í Kúnst.

Hér má sjá viðtalið við Ragnheiði í heild sinni:

Klippa: KÚNST - Ragnheiður Jónsdóttir

Ragnheiður Jónsdóttir hefur alla tíð verið hugfangin af samfélagsmálum og fylgst vel með fréttum. Hún er fædd árið 1933 og má segja að verk hennar séu söguleg. Ber þar meðal annars að nefna tvö grafíkverk sem hún gerði í kjölfar fyrsta Kvennaverkfallsins 1975. Ragnheiður þreytist aldrei á að læra og hefur staðið fyrir fjöldanum öllum af sýningum en hún er nú með einkasýninguna Kosmos/Kaos á Listasafni Árnesinga.

Allar eigur skrifaðar á mennina

Sýning Ragnheiðar spannar heilan feril þar sem bæði eru til sýnis nýleg verk eftir hana og sömuleiðis grafíkverk frá hennar fyrstu sýningu árið 1976. Meðal fyrri verka er sería af óléttukjólum sem virðast orðnir órjúfanlegur hluti af húsgögnum og verk af dyrabjöllu þar sem eina nafnið sem er greinilegt er nafn karlmannsins á heimilinu.

„Ástæðan fyrir því að ég set þarna dyrasímann er að það var allt skrifað á karlmennina á þessum tímum. Þarna sérðu standa Jón Jónsson og svo skipta hinir fyrir neðan ekki máli. Þú sérð ekkert hverjir þetta eru. Allar eigur voru bara skrifaðar á mennina og svo fylgdu bara konur með eins og eitt af húsgögnunum og börnunum.“

Ragnheiður Jónsdóttir á milli tveggja listaverka eftir sig.Vísir/Vilhelm

Særandi að Rauðsokkur töluðu niður til húsmæðra

Ragnheiður sækir gjarnan innblástur í eigin lífsreynslu og samfélagslegt umhverfi. Hún segist alla tíð hafa verið harðákveðin í því að vilja stofna fjölskyldu.

„Ég vildi eiga mörg börn og óléttukjólaverkin spretta út frá því. Þú sérð að það er svartur bakgrunnur á verkunum og það er í raun kvíðinn, þar sem maður veit að þetta er mikil ábyrgð. Maður hefur áhyggjur, ef maður á mörg börn þarf að fylgjast vel með þeim og passa upp á að ekkert komi fyrir þau. Þess vegna hef ég þennan svarta flöt í bakgrunni.“

Kveikjan að verkunum kom þegar Ragnheiður var á vinnustofu sinni.

„Ég var loksins búin að fá vinnustofu. Það var nú ekki fyrr en það var töluvert liðið á að ég fékk vinnustofu heima hjá mér og það skipti mig miklu máli. Ég er þar að vinna og hlusta á útvarpið og þá eru Rauðsokkurnar að byrja með sína pistla. Ég hlustaði af miklum áhuga á þær og þær voru að tala um það að náttúrulega ættu konurnar framvegis að mennta sig betur og fara út í þjóðlífið sem þátttakendur.

Mér fannst þær tala niður til heimavinnandi kvenna. Að þær væru innilokaðar, forpokaðar ef þær menntuðu sig ekki. Þetta fannst mér voðalega mikill misskilningur og mér fannst það svolítið særandi. Ég bar mikla virðingu fyrir konum sem áttu mörg börn og mér fannst þetta mjög ósanngjarnt. 

Ég var alveg ákveðin í því að ég vildi eiga mörg börn, alveg hreinar línur. Þannig kviknar hugmyndin að þessum myndum.“
Ónefnt verk frá Ragnheiði, þar sem óléttukjóll virðist orðið órjúfanlegt frá húsgagni.Ragnheiður Jónsdóttir

Listsköpunin ástríða úr æsku

Samhliða því að vilja eiga mörg börn langaði Ragnheiði að sama skapi að vera starfandi myndlistarkona.

„Ég var nú búin að þrá það frá því ég var krakki. Ég byrjaði eins og öll börn að teikna og hafa gaman að því. Mörg hætta um 10 eða 11 ára og fara að verða svo gagnrýnin. En ég bætti alltaf í, lærði og teiknaði meira og meira. Svo var ég alveg ákveðin í því að fara í myndlist. Ég byrjaði í kvöldskóla í Ásmundarsal hjá Myndlistarskólanum í Reykjavík, sem var ákaflega gaman.“

Samnemendur Ragnheiðar voru frá 17 ára og upp í sjötugt.

„Það fannst mér skemmtilegt. Maður tengdist þessu fólki öllu alveg sama á hvaða aldri maður var. Það finnst mér svo mikilvægt, þessi félagsskapur.“

Gerir myndirnar fyrst, hefur áhyggjurnar á eftir

Aðspurð hvort hún hafi alltaf verið óhrædd við álit annarra og þorað að segja sýna skoðun með verkum sínum svarar Ragnheiður:

„Ég hef gert myndirnar fyrst og haft áhyggjurnar á eftir. Þegar ég opnaði mína fyrstu sýningu þá hafði ég áhyggjur af því að ég yrði bara rökkuð niður. Þegar fólk sá óléttukjólana þá seldist engin mynd og ég hugsaði bara guð minn góður, hvar endar þetta. Svo bara kom runan. Fólk er alveg enn þann dag í dag að spyrja um óléttukjólana.“

Þetta verk Ragnheiðar heitir 24. október 1975 og var skapað í kjölfar Kvennafrídagsins sögulega.Ragnheiður Jónsdóttir

„Þetta var bylting, það er ekki hægt að segja annað“

Á sýningunni má meðal annars sjá tvö verk frá árinu 1975 sem verða að teljast ansi söguleg, þar sem myndefnið segir frá fyrsta Kvennaverkfallinu. 

„Þá var ég búin að hlusta á Rauðsokkurnar og var alveg ákveðin að mæta. Ég var svolítið sein fyrir og náði mér í pláss þar sem ég gat staðið upp á upphækkun og sá vel. 

Rauðsokkurnar voru að syngja og þetta var bylting, það er ekki hægt að segja annað. Það var ótrúlegt að upplifa þetta. 

Þá hugsaði ég það á örugglega eftir að verða geysileg breyting, konur eiga eftir að mennta sig og þær eiga eftir að komast í háar stöður, sem þær hafa gert. Þess vegna ákvað ég að ég vildi láta stjórnarráðið sjást í verkinu og sneri stólum að áhorfandanum, set svuntur á þá og læt blása í seglin, eins og svunturnar væru segl. Að það yrði hreyfing í þessu.“

Á öðru verki af sama degi lætur Ragnheiður klukkuna á Lækjartorgi sjást samhliða miklum mannfjölda.

„Ég hugsaði þetta svona sem mosavaxna minningu. 

Því þegar konurnar komu niður Bankastræti þá var þetta eins og þarna kæmi hraun, eins og þegar hraun veltur fram. Náttúrukraftur, svo sannarlega. Það hefur sýnt sig.“

Tengdar fréttir

„Hann var á betra kaupi en þær við það að horfa á þær vinna“

Listakonan, vefarinn og brautryðjandinn Hildur Hákonardóttir hefur haft mikil áhrif á íslenska listheiminn með einstökum og pólitískum verkum sínum. Hún hefur með sanni átt viðburðaríkt líf og er þekkt fyrir að hafa alltaf verið nokkrum skrefum á undan. Verk hennar prýða nú Kjarvalsstaði á yfirlitssýningunni Rauður þráður sem Sigrún Hrólfsdóttir sýningarstýrir. Hildur Hákonardóttir er viðmælandi í nýjasta þætti af Kúnst.

Hlær bara að hrútskýringum

Fjöllistakonan Guðlaug Sóley, jafnan þekkt sem Gugusar, hefur náð miklum árangri sem tónlistarkona á undanförnum árum og meðal annars unnið til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Hún byrjaði fimmtán ára gömul að semja tónlist og pródúsera sjálf en takmarkar sig ekki við einn listmiðil. Gugusar er viðmælandi í nýjasta þætti af Kúnst. 

Heillaðist af eyðileggingunni

„Ég var með sýningu einmitt hér í Ásmundarsal fyrir þremur árum, keypti risastóran skjá og hann brotnaði en ég heillaðist af eyðileggingunni á skjánum,“ segir Hrafnkell Sigurðsson, myndlistarmaður ársins 2022 en hann stendur að samsýningunni Þing/Thing í Ásmundarsal. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.