Menning

Á­hersla á hæg­læti á Sequences

Lovísa Arnardóttir skrifar
Daría Sól er sýningarstjóri og listrænn stjórnandi hátíðarinnar.
Daría Sól er sýningarstjóri og listrænn stjórnandi hátíðarinnar. Vísir/Anton Brink

Listahátíðin Sequences hefst á föstudag og stendur í tíu daga. Hátíðin er haldin annað hvert ár og er eina myndlistarhátíð landsins þar sem fjallað er um nútímalist. Yfirskrift hátíðarinnar í ár er „Pása“.  Daría Sól Andrews er sýningarstjóri hátíðarinnar. 

Á hátíðinni er áhersla á myndlist sem unnin er hægt eða yfir langan tíma.

„Þetta er hæg list, hægar upplifanir og hæglæti. Þaðan kemur titillinn og fólki er boðið á hátíðina til að hægja aðeins á sér.“

Fer fram á mörgum sýningarstöðum

Hátíðin fer fram á fjölmörgum sýningarstöðum, þar á meðal Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Nýlistasafninu, Kling & Bang, Ásmundarsal, Norræna húsinu og Hvammsvík.

„Þetta er eini listatvíæringurinn á Íslandi og aðalmyndlistarhátíðin okkar fyrir utan Listahátíð í Reykjavík,“ segir Daría Sól og að í gegnum árin hafi alltaf verið bland af innlendum og erlendum listamönnum.

Fjöldi listamanna tekur þátt í ár eins og Sigurður Guðjónsson, Ragna Róbertsdóttir og listamennirnir að baki Fischersundi og Lucky 3. Einnig taka þátt alþjóðlegir listamenn eins og Sasha Huber, Sheida Soleimani, Santiago Mostyn og Tabita Rezaire.

„Þetta er íslensk hátíð og fókusinn á íslenska myndlist en það er mikilvægt að hún sé alltaf í samtali við það sem er að gerast erlendis.“

Daría segir listamennina alla skapa list með hæglæti í huga. Einhverjir þeirra rannsaki og þrói eitthvað concept yfir marga áratugi eða ár á meðan aðrir noti aðferðir sem taka langan tíma fyrir listaverkið að verða til. Dæmi um listamenn á hátíðinni sem stundi rannsóknir fyrir sína list séu Ragna Róbertsdóttir, Santiago Mostyn og Sascha Huber.

Fólki er boðið að hægja á sér á hátíðinni og upplifa list sem vekur þau til umhugsunar um tímann. Vísir/Anton Brink

Á hátíðinni sé einnig að finna listamenn sem leggi áherslu á upplifun áhorfandans í gegnum hæglæti. Dæmi um listamenn á hátíðinni sem geri það sé Fischersund en þau verða með innsetningu á hátíðinni.

Hátíðin er almennt ókeypis og inn á sýningar þeirra en nauðsynlegt er að skrá sig á nokkra viðburði og er greitt inn á tvo viðburði í ár. Annar þeirra er í Hvammsvík og hinn er kvöldverður fyrir listamenn.

„Hátíðin stendur í tíu daga en sýningarnar standa flestar lengur,“ segir Daría Sól.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.