Erlent

Nær öruggt að árið í ár verði það heitasta í sögunni

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Síðustu fimm mánuðir hafa allir slegið met yfir heitustu mánuði sögunnar. 
Síðustu fimm mánuðir hafa allir slegið met yfir heitustu mánuði sögunnar.  AP Photo/Michael Probst, File

Fátt virðist nú koma í veg fyrir að árið 2023 verði það heitasta í sögunni eða frá upphafi mælinga í það minnsta.

Kópernikus, loftslagsstofnun Evrópu gaf út tölur fyrir októbermánuð sem var að líða og mánuðurinn hefur aldrei verið heitari á heimsvísu. Hitinn í október var þannig 1,7 gráðum heitari en að meðaltali við upphaf iðnbyltingar.

Þá var hitinn 0,4 gráðum hærri en þegar metið var síðast slegið, sem var árið 2019. Útblæstri koltvísýrings og veðurfyrirbrigðinu El Nino er helst kennt um þessa þróun en þetta var fimmta mánuðinn í röð sem hitametið á heimsvísu er slegið.

Samantha Burgess, aðstoðarforstjóri hjá Kópernikusi segir í samtali við Guardian að nú sé hægt að segja það nær fullvíst að árið í ár verði það heitasta í sögunni. Eins og staðan er í dag er árið 1,43 gráðum yfir meðalhitastiginu fyrir iðnbyltinguna.

Þá óttast vísindamennirnir að næsta ár verði enn heitara en það sem nú er að líða, ekki síst sökum þess að áhrifa El Nino mun þá gæta í enn meira mæli en á þessu ári.


Tengdar fréttir

Hlýjasta sumarið á norður­hveli frá upp­hafi

Sumarið á norðurhveli var það hlýjasta sem hefur nokkru sinni mælst. Ágúst var hlýjasti ágústmánuður á jörðinni frá upphafi mælinga og næsthlýjasti mánuðurinn á eftir júlí í sumar. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir heimsbyggðina standa frammi fyrir „loftslagshruni“.

Stefnir í hlýjasta árið frá upp­hafi eftir fun­heita sumar­mánuði

Vaxandi líkur er á því að árið í ár verði það hlýjasta frá upphafi mælinga eftir fordæmalaust heita júní- og júlímánuði. Veðurfyrirbrigðið El niño í Kyrrahafi og hnattræn hlýnun af völdum manna leggjast nú á eitt um að þrýsta meðalhita jarðar upp í nýjar hæðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×