Um 2,3 milljónir manna búa á Gasasvæðinu, sem er talið eitt þéttbýlasta svæði heims.
Ísraelar ætla ekki að veita íbúum Gasastrandarinnar aftur aðgang að vatni og rafmagni, né leyfa birgðaflutninga inn á svæðið, fyrr en Hamas-liðar hafa sleppt fólkinu sem þeir tóku í gíslingu í árásum þeirra á laugardaginn. Sameinuðu þjóðirnar og hjálparsamtök vara við því að ástandið sé mjög alvarlegt á Gasa.
Einn talsmanna ísraelska hersins sagði í dag að verið væri að undirbúa innrás á Gasaströndina, verði slík skipun gefin. Líklegt er að innrás verði gerð en ráðamenn í Ísrael hafa sett sér það markmið að gera útaf við Hamas-samtökin og bana hverjum einasta Hamas-liða.
Talsmaður Hamas-samtakanna sagði í dag að ef Ísraelski herinn gerði innrás, yrði honum eytt.
Heilbrigðisráðuneyti Gasa sagði í dag að 1.417 manns hefðu fallið í árásum Ísraelsmanna og að rúmlega sex þúsund hefðu særst. Ráðuneytið, sem er stýrt af Hamas, tilgreinir ekki hve margir þeirra sem hafa dáið voru Hamas-liðar en Ísraelar segjast hafa fellt um 1.500 þeirra.
Sjá einnig: Óttast að spítalinn breytist í líkhús
Árásir Hamas-liða á laugardaginn og sunnudaginn kostuðu rúmlega 1.200 manns lífið í Ísrael og þar af eru tæplega tvö hundruð hermenn.
Ísraelski herinn birti í dag myndband frá því á laugardaginn þegar sérsveitarmenn endurtóku landamærastöð við Gasaströndina, sem hafði fallið í hendur Hamas-liða um morguninn.
IDF publishes footage showing troops of the Navy's elite Shayetet 13 commando unit retaking the Sufa military post on the Gaza border from Palestinian terrorists on Saturday. pic.twitter.com/hthv0sWPXY
— Emanuel (Mannie) Fabian (@manniefabian) October 12, 2023