Foreldrahegðun á íþróttamótum barna var til umræðu í þættinum Hliðarlínunni sem sýndur var á Stöð 2 og Stöð 2 Sport í gærkvöld. Foreldrar veigra sér ekki við að láta í sér heyra og hrópa oft á börnin.
„Við höfum fengið fyrirspurnir frá börnum sem snúa að foreldrum sem hafa öskrað á þau eftir leiki og þau eru spyrja mega foreldrar haga sér svona,“ segir Salvör Nordal umboðsmaður barna.
Slæm hegðun foreldra á íþróttamótum geti haft mikil áhrif á börnin.
„Þetta er auðvitað mjög íþyngjandi fyrir börnin. Við erum alveg sannfærð um það að við erum ekki að heyra frá börnum út af svona málum nema vegna þess að þetta liggur þungt á þeim og þetta veldur þeim mikilli vanlíðan. Börn eru að upplifa mikla pressu.““

Þannig sé pressan oft mikil á fleiri sviðum.
„ Þetta er ekki bara í sambandi við íþróttir heldur líka bara almennt í sambandi við frammistöðu þeirra í skólanum eða öðrum tómstundum og börn eru að upplifa pressu að þau standi sig ekki og það eykur bara vanlíðan þeirra og jafnvel bara spillir auðvitað ánægju þeirra af því að stunda íþróttir og hvað annað sem þau eru að stunda.“
Þegar farið sé í skólana og félagsmiðstöðvar og rætt við börnin komi þessi mál oft upp.
„Um leið og maður opnar umræðu á íþróttastarf barna við börn þá er þetta eitt af þeim atriðum sem kemur mjög sterkt fram. Ég held að það sé mjög mikilvægt að foreldrar hlusti á börnin og heyri þeirra sjónarmið.“
Hægt er að sjá brot úr þættinum Hliðarlínan
í spilaranum hér fyrir neðan. Þátturinn í heild er á Stöð 2+.