Umræðan undanfarna daga hefur að einhverju leyti snúist um kynfræðslu og hinsegin fræðslu í grunnskólum. Samtökin 78 hafa þar verið sökuð um að standa að baki innrætingu í grunnskólum og hefur umræðan bæði verið óvægin og einkennst af rangfærslum.
Bjarndís Helga Tómasdóttir, varaformaður Samtakanna '78, segir samverustundina gríðarlega mikilvæga fyrir hinsegin fólk til að koma saman og finna gleðina í miðju bakslagi.
„Þessi samverustund er gríðarlega mikilvæg fyrir hinsegin fólk, koma saman og finna að við erum ekki ein. Eins og þú segir þá hefur umræðan hefur verið virkilega gróf og hreinlega rætin,“ sagði Bjarndís í viðtali við fréttastofu.
„Að koma svona saman, að finna gleðina sem fylgir því að vera hinsegin, það er vissulega líka gaman að vera hinsegin, vera með vinum sínum og hlusta á góða tónlist. Ég mundi segja að þetta væri gríðarlega mikilvægt enda Samtökin lengi verið öruggt athvarf fyrir hinsegin fólk,“ sagði hún.
Þið hljótið að finna fyrir einhverju baklandi utan samtakanna þegar umræðan fer út á þennan almenna vettvang?
„Við höfum verið að finna fyrir þessu bakslagi í að verða á þriðja ár. Eiginlega hefur það verið núna síðustu vikuna sem okkur líður eins og blaðran hafi sprungið og við virkilega finnum stuðninginn frá þessum áður þögla meirihluta sem við vitum að stendur með okkur. Það er gríðarlega mikilvægt að finna það,“ sagði Bjarndís.
Umræðan er sennilega ekki að fara neitt, þið haldið bara ótrauð áfram?
„Við vitum í mannréttindabaráttu að baráttan er aldrei búin. Henni er aldrei lokið. Við þurfum stöðugt að viðhalda og halda áfram. En ég veit ekki, ég er kannski óþarflega bjartsýn eftir kvöldið í kvöld, en ég vil trúa því að þessi áður þögli meirihluti skilji núna hversu mikilvægt það er að taka umræðuna og taka slaginn, vera með okkur í liði og leiðrétta allar þessar rangfærslur sem eru í gangi. Ég vil trúa því að það verði partur af samfélagsumræðunni í framhaldinu,“ sagði Bjarndís að lokum.