Innlent

Leggja fram frum­varp um kristin­fræði í grunn­skólum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Birgir Þórarinsson er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Birgir Þórarinsson er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. Vísir/Vilhelm

Sex þing­menn á vegum Sjálf­stæðis­flokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna vilja að kristin­fræði verði aftur kennd í grunn­skólum landsins. Þing­mennirnir hafa lagt fram frum­varp vegna málsins og leggja til að kristin­fræði verði kennd auk trúar­bragða­fræði.

Birgir Þórarins­son, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins er fyrsti flutnings­maður frum­varpsins. Á­samt honum setja sam­flokks­menn hans Ás­mundur Frið­riks­son, Vil­hjálmur Árna­son og Jón Gunnars­son nafn sitt við frum­varpið auk þeirra Bjarna Jóns­sonar, þing­manns Vinstri grænna og Jakobs Frí­manns Magnús­sonar, þing­manns Flokks fólksins.

Þing­mennirnir leggja til að í stað þess að það standi einungis „trúar­bragða­fræði“ í annarri máls­grein 25. grein laga um grunn­skóla muni standa „kristin­fræði og trúa­bragða­fræði.“ Mark­miðið sé að auka veg kristin­fræði­kennslu í grunn­skólum landsins og færa hana til fyrra horfs, fyrir gildis­töku grunn­skóla­laganna árið 2008.

Kristnin sam­ofin sögu þjóðarinnar

„Eðli­legt er að spurt sé hvaða hlut­verki kristin­fræði­kennsla geti gegnt í nú­tíma­sam­fé­lagi, þar sem sí­vaxandi veraldar­hyggja og fjöl­hyggja eru á­berandi. And­stæðingar kristin­fræði­kennslu vísa gjarnan til þess að æ fleiri segi sig úr þjóð­kirkjunni og fáir trúi á guð,“ segir meðal annars í greinar­gerð sem fylgir frum­varpinu.

„Flutnings­menn eru þeirrar skoðunar að taka eigi til­lit til þeirra trúar­bragða sem hafa verið ráðandi í mótun menningar okkar og sam­fé­lags. Kristni er sam­ofin sögu þjóðarinnar í meira en þúsund ár. Ekki er hægt að skilja menningu okkar nema hafa þekkingu á kristnum gildum, svo­kölluð fjöl­menningar­hyggja kemur þar ekki í staðinn.“

Á­hersla verði lögð á að nem­endur læri að þekkja sam­kennd og sið­ferði sem birtist í guð­spjöllunum og að nem­endur öðlist þjálfun í sið­ferði með því að þekkja biblíu­sögurnar og merkingu þeirra.

„Í náms­greininni kristin­fræði og trúar­bragða­fræði skal hlut­fall kennslu í kristin­fræði vera 50% og trúar­bragða­fræði 50%. Jafn­framt þarf að upp­færa og auka náms­efni á þessu sviði.“

Skólinn ekki trú­boðs­stofnun

Þing­mennirnir segja kennsluna ekki eiga að stangast á við trú­frelsi, skólinn sé ekki trú­boðs­stofnun. Skólanum sé ætlað að miðla þekkingu og auka skilning á kristinni trú og öðrum trúar­brögðum.

Með vaxandi fjölgun ís­lenskra ríkis­borgara sem eru af er­lendu bergi brotnist aukist nauð­syn þess að brjóta niður múra á milli menningar­heilda og trúar­hópa og auka þar með um­burðar­lyndi. Slíkt sé best gert með sér­stakri fræðslu um ríkjandi trú landsins, kristni og al­mennri fræðslu um trúar­brögð.

„Til að slík fræðsla verði að gagni og nái að stuðla að al­hliða þroska nem­enda og virkri þátt­töku þeirra í lýð­ræðis­þjóð­fé­lagi þarf hún að ná til allra,“ segir í greinar­gerðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×