Erlent

Evrópu­sam­bands­ríkin drógu úr losun þrátt fyrir hag­vöxt

Kjartan Kjartansson skrifar
Hitamælir sem sýnir 42 gráður í Róm í júlí. Menn valda nú hnattrænni hlýnun með stórfelldri losun á gróðurhúsalofttegundum.
Hitamælir sem sýnir 42 gráður í Róm í júlí. Menn valda nú hnattrænni hlýnun með stórfelldri losun á gróðurhúsalofttegundum. Vísir/EPA

Losun gróðurhúsalofttegunda dróst saman um tæplega þrjú prósent á fyrsta fjórðungi ársins þrátt fyrir að hagvöxtur hafi verið á tímabilinu samkvæmt nýjum tölum evrópsku hagstofunnar Eurostat. Hún jókst þó í sex ríkjum, þar á meðal Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi.

Alls losuðu Evrópusambandsríkin 941 milljónir tonna af koltvísýringsígildum fyrstu þrjá mánuði ársins. Það var 2,9 prósent minna en á sama tímabili í fyrra. Á sama tíma mældist hagvöxtur 1,2 prósent á milli ára. Lengi hefur verið sterk fylgni á milli efnahagsumsvifa og losunar í flestum ríkjum heims.

Losunin dróst saman í 21 ríki af 27 en jókst í sex þeirra: Írlandi, Lettlandi, Slóvakíu, Danmörku, Svíþjóð og í Finnlandi, að því er kemur fram í frétt Reuters.

Heimilin voru stærsta einstaka uppspretta losunarinnar í sambandinu, um fjórðungur hennar. Framleiðsla af ýmsu tagi kom þar á eftir með um fimmtung losunarinnar.

Evrópusambandið stefnir að kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Íslands tekur þátt í sameiginlegu markmiði ESB og Noregs um 55 prósent samdrátt í losun fyrir árið 2030. Fyrr á þessu ári samþykkti sambanið bann við sölu á nýjum bensín- og dísilbílum frá árinu 2035 til þess að mæta fyrrnefnda markmiðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×