Kári Stefánsson náði enn einu sinni að fanga athygli fjölmiðla með því að lýsa því yfir í viðtali að í baksýnisspeglinum hefði etv ekki átt að bólusetja einstaklinga undir fimmtugu m.a. vegna hættu á hjartabólgu. Þetta vakti að vonum athygli og ekki síður þau orð Kára að hann hafi ekki orðið var við neitt offors þegar það kom að fólki sem hafði aðra skoðun á bólusetningum. Mörgum þótti þetta áhugavert í ljósi þess að Kári kallaði þá sem létu ekki bólusetja sig drullusokka og lagði til að óbólusettir yrðu fluttir út í Grímsey. Ekkert offors þar, bara meðalhóf.
Sóttvarnarlæknir var spurður út í þessi umæli og kom hún af fjöllum og sagðist ekki þekkja til neinna rannsókna sem sem sýndu meiri líkur á hjartabólgu eftir bólusetningu en COVID-19 sýkingu.
Kári bakkaði reyndar fljótt enda hefur hann sennilega fengið tiltal í sínu nærumhverfi og nýlega kom út fræðigrein hér á Vísi þar sem Kári og Ingileif dásama aðgerðir sóttvarnaryfirvalda í hvívetna. Þau vísa m.a. í grein sem sýnir samkvæmt þeim „á óyggjandi hátt að hættan á hjartavöðva- eða gollurshússbólgu í kjölfar COVID-19 sýkingar er um 6 sinnum meiri en af bólusetningum“. Þessi grein sem þau vitna í var vel gerð, en hins vegar voru aldurshópar ekki skoðaðir sérstaklega.
Sem sagt, samkvæmt mikilfenglegasta vísindamanni þjóðarinnar og sóttvarnarlækni er mun líklegra að einstaklingur fái hjartabólgu eftir COVID-19 sýkingu heldur en bólusetningu við COVID-19. Hlýtur það ekki að vera rétt? Svarið er: Sennilega ekki fyrir meirihluta þjóðarinnar. Hvernig má þetta vera? Jú, stór rannsókn sem birtist í hinu virta vísindariti Circulation árið 2022 bar saman hættu á hjartabólgu eftir bólusetningu og COVID-19 sýkingu m.t.t. kyns og aldurs. Í þessari rannsókn sem náði til 42 milljóna einstaklinga kom vissulega í ljós að ef allt þýðið var skoðað, var hættan á hjartabólgu hærri hjá þeim sem fengu COVID-19 sýkingu en hjá þeim sem fengu bólusetningu.
Hins vegar, og þetta er mergurinn málsins, þegar einungis voru skoðaðir einstaklingar sem voru 40 ára og yngri (sá aldurshópur er 56% íslensku þjóðarinnar), kom í ljós að hættan á hjartabólgu hjá karlmönnum var 6x meiri eftir seinni bólusetningu með mRNA bóluefni heldur en eftir COVID-19 sýkingu. Hættan hjá konum undir 40 ára var svipuð milli hópa, þeas ekki marktækur munur. Það er því misvísandi einföldun að halda því fram að COVID-19 sýking leiði frekar til hjartabólgu en bólusetning. Fullyrðingin er sennilega rétt þegar kemur að öllu þýðinu, en ekki þegar kemur að ungu fólki, sérstaklega ungum karlmönnum. Nýleg samantektar-rannsókn sýnir einnig að karlmenn undir 40 ára aldri eru í mestri hættu á hjartabólgu eftir seinni skammt af mRNA bóluefni við COVID-19. Sambærileg niðurstaða fæst í stórri rannsókn. Mikilvægt er að taka fram að hættan er lítil, og er hún áætluð um 1/10,000. Hins vegar er um að ræða unga og hrausta einstaklinga og þó hjartabólga sé oftast væg þá er ekki að fullu ljóst hvaða langtímaafleiðingar hún hefur í för með sér. Vegna þess hversu sjaldgæf hjartabólgan er, þarf grein sem nær til milljóna manna til að finna tölfræðilegan mun milli hópa.
Það var snemma ljóst að ungum hraustum einstaklingum stafaði lítil hætta af COVID-19 sýkingu. Þegar kom að bólusetningu barna og ungmenna fannst mér of geyst farið og í grein á Vísi ræddi ég m.a. stuttlega að tíðni hjartabólgu væri aldurstengd og óvíst væri með áhættu vs ávinning hjá þessum hópi. Einnig hvöttu tveir hjartalæknar hérlendis til að farið væri varlega með bólusetningar hjá þessum hópi. Lítið var hlustað á þessi varnaðarorð og þeim tekið fálega. Ég var fenginn í viðtal hjá Kveik undir því yfirskini að ræða bólusetningu barna, en í raun um ákveðna fyrirsát að ræða þar sem flest allt sem ég hafði að segja var klippt og tekið úr samhengi. Eitt af því var þegar spyrillinn spurði hæðnislega hvaða aldurshópa ætti ekki að bólusetja og ég svaraði eitthvað á þá leið að etv ætti ekki að bólusetja heilbrigða einstaklinga undir þrítugu. Ég óskaði á sínum tíma eftir að Kveikur sýndi viðtalið óklippt á vefnum sínum en við því var ekki orðið.
Tilefni þessara skrifa minna er að það er mikilvægt að það komi fram að tíðni hjartabólgu hjá ungum karlmönnum er sennilega hærri eftir bólusetningu en eftir COVID-19 sýkingu. Þetta hefur einhverra hluta vegna farið fram hjá fjölmiðlum og reyndar sóttvarnarlækni líka. Að mínu mati ætti þetta að hafa áhrif á ráðleggingar Landlæknisembættis um örvunarbólusetningar. Þar er ekki mælt með þeim fyrir 12-15 ára börn, en etv mætti íhuga að mæla ekki með þeim heldur fyrir heilbrigða karlmenn sem eru 40 ára og yngri.
Þessi dæmisaga um hjartabólgur er lítill angi af stærra máli. Nauðsynlegt er að það fari fram óháð uppgjör um viðbrögð okkar við COVID-19 faraldrinum. Til þessa hafa flestir sem líta til baka verið sjálfir aðal leikendur og gerendur og það er etv ekki áhrifaríkasta leiðin til að reyna að finna það sem betur hefði mátt fara, enda eru slíkir aðilar líklegri til að vilja horfa á fegurri hliðar málsins. Til dæmis mætti setja á fót rannsóknarnefnd Alþingis til að fara ofan í kjölinn á viðbrögðum við COVID-19 faraldrinum á heildrænan hátt, þeas þar sem ákvarðanataka og afleiðing þeirra verði skoðuð m.a. út frá lýðheilsu, læknisfræði, efnahag, lögfræði, umfjöllun fjölmiðla og siðfræði. Það er mikið í húfi að viðbrögð okkar við næsta faraldri séu eins vel ígrunduð og mögulegt er.
Höfundur er læknir.