Fótbolti

Mané mun maka krókinn með myndar­legum mánaðar­launum

Siggeir Ævarsson skrifar
Sadio Mane brosir sennilega álíka breitt yfir laununum sínum hjá Al Nassr
Sadio Mane brosir sennilega álíka breitt yfir laununum sínum hjá Al Nassr Vísir/Getty

Sadio Mané mun ekki þurfa að lepja dauðann úr skel næstu misserin en hann mun þéna um 650.000 pund á viku hjá Al Nassr, skattfrjálst.

Samkvæmt frétt SkySports verða árslaun Mané hjá Al Nassr 34 milljónir punda, eða um 5,7 milljarðar íslenskra króna. Ríkissjóður Sádí Arabíu er ekki beinlínis á flæðiskeri staddur um þessar mundir og skattprósentan á launafólk þar í landi er 0%.

Mané hefur samið við Al Nassr til 2027, svo að hann gæti þénað allt að 136 milljónir punda á næstu árum, eða 23 milljarða íslenskra króna. Verður hann einn af launahæstu leikmönnum deildarinnar.

Þessar himinháu launagreiðslur sem leikmönnum standa nú til boða í Sádí Arabíu hafa nú þegar valdið umtalsverðum titringi innan knattspyrnuheimsins þar sem að hver leikmaðurinn á fætur öðrum hefur látið glepjast af gylliboðum. 

Sú staðreynd að þessar háu tekjur séu með öllu skattfrjálsar hafa einnig farið öfugt ofan í marga almenna borgara þar sem leikmennirnir gefi ekki lengur neitt til baka til samfélagsins í gegnum skattgreiðslur, heldur geti setið á auði sínum eins og ormar á gulli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×