„Hitinn í júlí hefur þegar verið svo hár að það er hér um bil öruggt að mánuðurinn muni slá hitamet með yfirburðum,“ segir í skýrslu sem Alþjóðaveðurfræðistofnunin og Loftslagsstofnun Evrópusambandsins gáfu frá sér í dag.
Í frétt CNN segir að síðustu þrjár vikur hafi verið þær heitustu frá upphafi mælinga og líklega í meira en hundrað þúsund ár. Þá segir að venjulega þegar hitamet af þessu tagi séu slegin muni hundraðshlutum úr selsíusgráðu milli nýja og gamla metsins en í þetta skipti sé munurinn talsvert meiri. Fyrstu 23 dagana í júlí var meðalhiti jarðar 16,95 gráður á selsíus en hæsti meðalhiti á einum mánuði enn sem komið er,eru 16,63 gráður í júlí árið 2019. Metið verði því mögulega slegið með óvenjulega miklum yfirburðum.
Miklar líkur á hitameti
Hitamælingarnar sem miðað er við hófust hófust árið 1940, en margir sérfræðingar telja það nær bókað að hitatölurnar í júlí verði þær hæstu á jörðinni í 120 þúsund ár, ef miðað er við upplýsingar sem fengist hafa úr trjáhringjum, kóralrifum og djúpsjávarseti.
„Þetta eru hæstu hitatölur í sögu mannkyns,“ segir Samantha Burgess, staðgengill forstjóra Loftslagsstofnunar Evrópusambandsins.
„Líkurnar benda svo sannarlega til þess að met verði slegin í sumar,“ segir Carlo Buontempo, forstjóri stofnunarinnar. Hann bætti þó við að of snemmt væri að alhæfa um það.
Hitabylgjur víðast hvar
Skæðar hitabylgjur hafa riðið yfir víða í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu síðustu vikur. Gróðureldar hafa logað meðal annars á Grikklandi, Spáni, Alsír og Kanada. Þá hafa hitatölur víða náð nærri fimmtíu gráðum.