Pavel Ermolinskij, er fyrrum landsliðsmaður en hann lék alls 76 landsleiki frá árinu 2004 til 2022. Pavel fór í tvígang á lokamót Eurobasket árið 2015 og 2017.
Hjalti Þór Vilhjálmsson og Baldur Þór Ragnarsson hafa verið aðstoðarþjálfarar Craig Pedersen í A-landsliði karla í körfubolta. Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Ulm í Þýskalandi, mun halda áfram í þjálfarateyminu en í stað Hjalta kemur Pavel sem gerði Tindastól að Íslandsmeisturum í vor. KKÍ tilkynnti þetta á heimasíðu sinni í dag.
Í stuttu samtali við Vísi sagði Hannes Sigurbjörn Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ, „Hjalti óskaði eftir því að fá að hætta sjálfur þar sem hann vildi eiga meiri tíma með fjölskyldunni í sumar. Þetta var allt gert í sátt og samlyndi.“
Hjalti Þór Vilhjálmsson tók í síðasta mánuði við kvennaliði Vals sem er ríkjandi Íslandsmeistari í Subway-deild kvenna. Hjalti Þór ásamt Craig Pedersen og Baldri Þór Ragnarssyni framlengdu samning sinn í nóvember á síðasta ári til þriggja ára eða fram yfir Eurobasket 2025.
Það var því nokkuð óvænt að breyting hafi verið gerð á landsliðsteyminu en Pavel Ermolinskij hefur komið eins og stormsveipur inn í körfuboltaþjálfun í meistaraflokki.
Hörður Axel Vilhjálmsson, fyrirliði karlalandsliðs Íslands í körfubolta, er einn af þeim sem gaf ekki kost á sér í þetta verkefni en Hörður Axel er bróðir Hjalta Þórs Vilhjálmssonar.