Fótbolti

Læri­sveinar Heimis ó­heppnir að ná bara í stig gegn Banda­ríkjunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Heimir gefur sínum mönnum leiðbeiningar.
Heimir gefur sínum mönnum leiðbeiningar. Robin Alam/Getty Images

Jamaíka mætti Bandaríkjunum í Gullbikarnum [e. Gold Cup] í nótt. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli en Jamaíka komst yfir og brenndi af vítaspyrnu áður en Bandaríkin jöfnuðu metin undir lok leiks. Þetta var 11. leikur Jamaíka án sigurs.

Bandaríkin og Jamaíka mættust á Hermanna-vellinum í Seattle í nótt. Í byrjunarliði Jamaíka mátti finna fjóra leikmenn sem spila í ensku úrvalsdeildinni; Bobby Decordova-Reid frá Fulham, Demerai Gray frá Everton, Leon Bailey frá Aston Villa og Michail Antonio frá West Ham United.

Jamaíka byrjaði betur og Gray lagði upp mark fyrir Damion Lowe á 13. mínútu leiksins. Bailey fékk svo gullið tækifæri til að tvöfalda forystuna eftir hálftíma leik en vítaspyrna hans fór forgörðum. Staðan 1-0 Jamaíka í vil í hálfleik.

Í síðari hálfleik voru Bandaríkjamenn betri og jafnaði Brandon Vazquez metin á 88. mínútu, lokatölur 1-1. Bæði lið því með 1 stig í A-riðli að loknum einum leik. Í A-riðli leika einnig Trínidad & Tóbagó og Saint Kitts og Nevis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×