Fótbolti

Kristall snýr aftur „þroskaðri og full­orðnari“

Sindri Sverrisson skrifar
Kristall Máni Ingason með Brann-treyju sem sýnir að samningur hans gildir til 2029. Hann mætti til móts við liðið á Marbella á Spáni, þar sem það er við æfingar.
Kristall Máni Ingason með Brann-treyju sem sýnir að samningur hans gildir til 2029. Hann mætti til móts við liðið á Marbella á Spáni, þar sem það er við æfingar. Brann.no

Norska Íslendingafélagið Brann hefur fest kaup á fótboltamanninum Kristali Mána Ingasyni frá Sönderjyske í Danmörku og kynnti hann formlega til leiks í dag.

Kristall Máni, sem á að baki sex A-landsleiki auk fjölda leikja fyrir yngri landslið Íslands, snýr þar með aftur til Noregs eftir að hafa farið á kostum fyrir jól í dönsku úrvalsdeildinni.

Hann er sagður kosta jafnvirði rúmlega 200 milljóna íslenskra króna og að hafa þannig margfaldast í verði frá því að Sönderjyske keypti hann frá Rosenborg árið 2023.

Kristall skilur við Sönderjyske í 4. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar, með sex mörk og tvær stoðsendingar í fjórtán deildarleikjum í vetur.

Hef trú á að þetta gangi mjög vel í þetta sinn

Hlutirnir gengu ekki alveg upp þegar þessi 24 ára, uppaldi Fjölnismaður var hjá Rosenborg en hann er staðráðinn í að gera betur með Brann.

„Síðast þegar ég var í norska fótboltanum var ég mjög ungur. Ég hef þroskast og fullorðnast, og tekið skref sem leikmaður. Þess vegna hef ég trú á því að það gangi mjög vel í þetta sinn,“ sagði Kristall á heimasíðu Brann.

Þar segir að ekki verði hægt að skrá hann sem leikmann Brann fyrr en eftir leikinn við Sturm Graz í Austurríki á fimmtudaginn, þegar Brann spilar um að komast áfram úr Evrópudeildinni.

Brann leikur undir stjórn Freys Alexanderssonar og þeir Sævar Atli Magnússon og Eggert Aron Guðmundsson eru báðir leikmenn liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×