Handbolti

Daninn leggur orð í belg eftir gagn­rýni Dags og Gísla Þor­geirs

Aron Guðmundsson skrifar
Nicolaj Jacobsen, landsliðsþjálfari Danmerkur tjáði sig um gagnrýni á keppnisfyrirkomulag EM í handbolta
Nicolaj Jacobsen, landsliðsþjálfari Danmerkur tjáði sig um gagnrýni á keppnisfyrirkomulag EM í handbolta Vísir/Samsett

Nikola­j Jacob­sen sýnir gagn­rýni á keppnis­fyrir­komu­lag EM í hand­bolta, sem hefur komið frá mönnum eins og Degi Sigurðs­syni og Gísla Þor­geiri Kristjáns­syni, skilning en efast um að liðin í milli­riðli eitt gagnist á fyrir­komu­laginu.

Dagur Sigurðs­son, lands­liðsþjálfari Króatíu, sem er í milli­riðli tvö ásamt ís­lenska lands­liðinu gagn­rýndi keppnis­fyrir­komu­lagið á EM í viðtali eftir sigur Króata á Slóvenum í gær.

„Það líða tuttugu og tvær klukku­stundir á milli leikja hjá okkur. Ég þakka bara EHF fyrir,“ sagði Dagur með kald­hæðnis­legum tón. „Þetta er ótrú­legt, það að við þurfum að spila tvo daga í röð, gjör­sam­lega ótrú­legt.“

Lið riðilsins þurfa að spila tvo leiki á tveimur dögum og þau sem fara áfram í undanúr­slit þurfa svo að ferðast frá Mal­mö í Svíþjóð yfir til Herning í Dan­mörku þar sem að þau munu mæta liðum úr milli­riðli eitt sem hefur verið spilaður þar, liðin spilað annan hvern dag og þurfa heldur ekkert að ferðast.

Síðasta vika EM í handbolta:

  • Mánudagur: Liðin í milliriðli eitt spila í Herning
  • Þriðjudagur: Liðin í milliriðli tvö spila í Malmö
  • Miðvikudagur: Liðin í báðum milliriðlum spila í Herning og Malmö
  • Fimmtudagur: Frídagur fyrir liðin í milliriðli eitt sem spiluðu í Herning / Liðin í milliriðli tvö ferðast frá Malmö til Herning.
  • Föstudagur: Undanúrslit í Herning sem og leikur um 5.sæti
  • Laugardagur: Frídagur
  • Sunnudagur: Úrslitaleikur EM í Herning sem og leikur um þriðja sætið.

Gjörsamlega galið

Ríkjandi heims- og ólympíu­meistarar Dan­merkur eru komnir áfram í undanúr­slitin þar sem að þeir verða á heima­velli í Herning og hafa til þessa og munu spila alla leiki sína á mótinu þar.

Þjálfari liðsins, Nicola­j Jacob­sen, skilur að hluta til gagn­rýnina á keppnis­fyrir­komu­lag mótsins en veit ekki hvort það gefi liðum á borð við danska lands­liðið for­skot þegar komið er inn í undanúr­slitin.

„Þetta veitir okkur meiri hugarró en hvort þetta gefi okkur for­skot veit ég ekki,“ sagði Nicola­j í sam­tali við TV 2 og bendir hann á að liðin í milli­riðli Ís­lands hafi fengið meiri tíma til þess að undir­búa sig fyrir seinni stig mótsins.

„Þau lið hófu keppni í milli­riðlum degi seinna en við og hafa því haft meiri tíma til þess að undir­búa sig, ef þú snýrð þessu við.“

Sér­fræðingur TV 2, Daniel Svens­son, telur hins vegar að keppnis­fyrir­komu­lagið geti haft mikil áhrif á komandi undanúr­slita­leiki þar sem að liðin í milli­riðli Ís­lands fái minni tíma í endur­heimt saman­borið við liðin í milli­riðli Dan­merkur.

„Það er ósann­gjarnt fyrir þau lið að spila tvo leiki á tveimur dögum, þurfa síðan að ferðast til Herning í Dan­mörku og spila svo undanúr­slita­leik á föstu­daginn. Það er gjör­sam­lega galið að setja fyrir­komu­lagið svona upp.“

Ísland getur með sigri gegn Slóveníu í dag komist í undanúrslit á EM í handbolta, í þriðja sinn í sögunni. Leikurinn hefst klukkan hálf þrjú og verður í beinni textalýsingu hér á Vísi. Upphitun er nú þegar hafin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×