Erlent

Reyna að bjarga Colorado-fljóti

Samúel Karl Ólason skrifar
Lítið vatn er í Lake Mead, uppistöðulóni Hoover Dam í Nevada, um þessar mundir.
Lítið vatn er í Lake Mead, uppistöðulóni Hoover Dam í Nevada, um þessar mundir. Getty/RJ Sangosti

Yfirvöld í Kaliforníu, Arisóna og Nevada hafa komst að samkomulagi um að draga úr notkun vatns úr Colorado-fljóti. Vatnshæð fljótsins hefur lækkað mjög en vatn úr fljótinu er gífurlega mikilvægt íbúum stórra borga eins og Phoenix og Los Angeles og nauðsynlegt umfangsmiklum landbúnaði í vesturhluta Bandaríkjanna.

Um fjörutíu milljónir manna í sjö ríkjum Bandaríkjanna og í Mexíkó drekka vatn úr fljótinu og það er notað til að veita vatni á um 2,2 milljónir hektara af ræktunarlandi. Fljótið sér einnig milljónum heimila og fyrirtækja fyrir rafmagni.

Samkomulagið var opinberað í gær en forsvarsmenn ríkjanna hafa deilt um samkomulagið í nokkur ár. Það felur í sér að alríkisstjórn Bandaríkjanna mun verja 1,2 milljarði dala í áveitur og aðra innviði í skiptum fyrir það að dregið verði úr vatnsnotkun í byggðum bólum landshlutans.

 New York Times segir að draga eigi úr vatnsnotkun um þrettán prósent og það muni að öllum líkindum leiða til verulegra takmarkana á notkun vatns í bæjum og við landbúnað.

Wall Street Journal segir suðvesturhluta Bandaríkjanna hafa gengið í gegnum tveggja áratuga langt þurrkatímabil og ástandið hafi líklega ekki verið verra í um 1.200 ár, samkvæmt vísindamönnum.

Ekki er búist við því að ástandið muni skána í bráð en vandinn hefur verið rakinn til Klettafjallanna og þess að dregið hefur úr snjókomu þar og hún minna áreiðanleg en áður. Mest allt vatn Colorado-fljóts kemur úr þeim fjöllum.

Hér að neðan má sjá svokallað timelapse sem sýnir gervihnattamyndir af Lake Meade, sem er annað uppistöðulón Colorado-fljóts og er nærri Las Vegas. Myndirnar ná frá 1984 til 2020 og sýna glögglega að vatnshæð í lóninu hefur lækkað töluvert.

Ástandið hefur versnað frá 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×