Fótbolti

Sjálfs­mark Arnórs Ingva gaf Elfs­borg sigur gegn Norr­köping

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hákon Rafn stóð vaktina í marki Elfsborg þegar liðið vann Norrköping í dag.
Hákon Rafn stóð vaktina í marki Elfsborg þegar liðið vann Norrköping í dag. Twitter@IFElfsborg1904

Arnór Sigurðsson kom Norrköping yfir í Íslendingslag gegn Elfsborg í sænsku úrvalsdeild karla í knattspyrnu. Það dugði hins vegar ekki þar sem Elfsborg kom til baka og vann 2-1 sigur þar sem Arnór Ingvi Traustason setti boltann í eigið net. Þá vann Kalmar 1-0 útisigur.

Það var fjöldi Íslendinga í eldlínunni í Svíþjóð í dag. Arnór Sigurðsson og Arnór Ingvi voru í byrjunarliði Norrköping þegar liðið tók á móti Elfsborg í dag. Hjá gestunum voru Hákon Rafn Valdimarsson og Sveinn Aron Guðjohnsen í byrjunarliðinu.

Sveinn Aron fékk gult spjald um miðbik fyrri hálfleiks þegar hann braut á Arnóri Sig. Sá síðarnefndi hefndi sín þegar hann braut ísinn á 29. mínútu leiksins. Hann átti þá aukaspyrnu utan af kanti sem flaug yfir alla í vítateignum og endaði í horninu fjær.

Reyndist það eina mark fyrri hálfleik. Heimamenn héldu forystunni en þegar fimmtán mínútur lifðu leiks jafnaði Elfsborg metin. Skömmu síðar kom Andri Lucas Guðjohnsen inn fyrir Arnór Sigurðsson.

Þegar sex mínútur voru til leiksloka fengu gestirnir hornspyrnu. Fyrirgjöfin fór af Arnóri Ingva og í netið sem kom gestunum 2-1 yfir. Fleiri urðu mörkin ekki og Elfsborg vann mikilvægan 2-1 sigur í toppbaráttunni.

Davíð Kristján Ólafsson spilaði allan leikinn og fékk gult spjald í 1-0 útisigri Kalmar á Varnamo.

Elfsborg er í 2. sæti með 22 stig að loknum 9 umferðum. Norrköping er í 4. sæti með 17 stig og Kalmar í 6. sæti með 14 stig.

Í úrvalsdeild kvenna gerði Rosengård 2-2 jafntefli á útivelli við Hammarby. Guðrún Arnarsdóttir spilaði allan leikinn í vörn Rosengård. Gestirnir brenndu af vítaspyrnu í uppbótartíma.

Rosengård hefur átt erfitt uppdráttar á leiktíðinni og er í 7. sæti með 15 stig að loknum 9 umferðum. Hammarby er í 3. sæti með 19 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×