Innlent

Farið fram á nauðungar­sölu á heimili borgar­full­trúa

Kjartan Kjartansson skrifar
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, skuldar Skattinum á þriðju milljón króna.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, skuldar Skattinum á þriðju milljón króna. Vísir/samsett

Skatturinn hefur óskað eftir nauðungarsölu á heimili Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, í Vesturbæ Reykjavíkur, Kjartan segir að beiðnina megi rekja til skattskuldar sem varð til á meðan hann var utan borgarstjórnar.

Hús Kjartans að Hávallagötu í Reykjavík er á meðal þeirra eigna sem Skatturinn óskar eftir nauðungarsölu á til fullnustu á kröfum um peningagreiðslur. Beiðnin var birt á vef Lögbirtingarblaðsins í dag. Fjárhæð kröfunnar er rúmar tvær og hálf milljón króna. Krafan verður tekin fyrir hjá sýslumanni 22. júní nema hún verði felld niður áður.

Í samtali við Vísi segir Kjartan að um skattskuld sé að ræða sem eftir eigi að ganga frá. Hún hafi orðið til þegar hann hafði stopular tekjur eftir að hann var utan borgarstjórnar í kosningunum 2018. Skatturinn hafi þá áætlað á hann álagningu. Hann muni gera skuldina upp.

Fyrir utan kjörtímabilið 2018 til 2022 hefur Kjartan setið í borgarstjórn, ýmist sem aðal- eða varamaður undanfarin tæp þrjátíu ár. Hann var varaborgarfulltrúi frá 1994 til 1999 og borgarfulltrúi frá 1999 til 2018.

Kjartan lenti í þriðja sæti í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2018. Eyþór Arnalds leiddi listann en Kjartan var ekki á framboðslista flokksins. Fyrir kosningarnar í fyrra gaf hann kost á sér í annað sæti á lista sjálfstæðismanna en endaði í því þriðja. Kjartan situr nú meðal annars í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði og umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×