Erlent

Vond lykt á hótel­her­bergi reyndist vera af líki undir rúmi

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hótelið er staðsett í höfuðborg Tíbet, Lhasa.
Hótelið er staðsett í höfuðborg Tíbet, Lhasa. Getty

Ferðamaður í Tíbet þurfti að skipta um herbergi á hóteli vegna vondrar lyktar sem angaði um allt herbergið sem honum var úthlutað. Nokkrum dögum síðar kom í ljós að lyktin var af rotnandi líki undir rúminu sem maðurinn átti að gista í.

Maðurinn hafði verið í herberginu í hálfan dag þegar hann gafst upp og fékk nýtt herbergi, lyktin var svo vond. Hann hafði talið að lyktin kæmi frá bakaríi sem var fyrir neðan herbergið. 

Tveimur dögum síðar, þegar hann var kominn í nýtt herbergið, var hann yfirheyrður af lögreglu þar sem lík hafði fundist undir rúminu í herberginu sem hann átti upphaflega að gista í. 

„Ég spurði þá hvað hafði gerst og þeir sögðu mér að einhver hafi dáið. Svo ég spurði þá hvar. Þeir sögðu að það hafi verið undir rúminu mínu,“ hefur CNN eftir manninum. 

Samkvæmt kínverskum miðlum var maður sem grunaður er um að hafa myrt manninn í lest á leið til borgarinnar Lanzhou sem er í tvö þúsund kílómetra fjarlægð frá Tíbet. Maðurinn sem átti að gista í herberginu var aldrei grunaður um morðið þar sem talið er að líkið hafi verið þar í nokkra daga áður en hann mætti á hótelið.

Leiðin frá Tíbet til Lanzhou er ansi löng.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×