Skoðun

Fjórar loðnur á tíkallinum –billjónir loðna á land!

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir skrifar

Þau góðu tíðindi bárust frá Hafrannsóknarstofnun að loðnuafli á yfirstandandi fiskveiðiári yrði aukinn um 184.100 tonn frá síðustu ráðgjöf, heildarmagn loðnu sem veiða má nemur því 459.800 tonnum. Þessi aukning mun skipta sköpum fyrir ríkissjóð við núverandi efnahagsaðstæður. Loðnan er þekkt fyrir að prýða tíkallinn en verðmæti hennar verður seint talið í smámynt því gera má ráð fyrir að útflutningsverðmæti aukningarinnar nemi á bilinu 14-18 milljörðum króna og spili veigamikinn þátt í gjaldeyrisöflun og hagvexti hér á landi, sem og tekjuaukningu til ríkissjóðs vegna veiðigjalda.

Gróflega má áætla að á bilinu 23 til 37 billjónir loðna komi á land á næstu vikum og mánuðum, þó vissulega sé sú framsetning framandi varpar hún ljósi á umfang veiðanna, sem er gífurlegt. Þegar tekist er á við verkefni sem þetta er mikilvægt að muna á hvaða forsendum, við treystum og tryggjum, til langs tíma sjálfbærni veiða hér við land án þess að ganga um of á nytjastofna. Ráðgjöf Hafró er til þess gerð og minnir okkur á mikilvægi þess að standa vörð um rannsóknir og vöktun fiskistofna við Íslandsstrendur. Gert var ráð fyrir að veiðarnar færu fram á þeim slóðum sem loðnan fannst, úti fyrir Húnaflóa en nú hefur komið í ljós að loðnan er á göngu vestur fyrir land og hrygni væntanlega þar. Þess vegna sé ekki lengur þörf á svæðaskiptingu.

Það er dýrkeypt fyrir þjóð sem treystir að svo miklu leyti á fiskveiðar að ganga of nærri auðlindum sínum. Það þekkjum við. Vissulega fáum við ekki stjórnað öllum breytum þegar kemur að fisknum í sjónum, eins og fiskgengd loðnu nú um stundir, en dæmin sýna að ábyrg veiðistjórnun og nýting fiskistofna hér við land fara vel saman og þess vegna er mikilvægt að tryggja góðar hafrannsóknir sem eru forsenda ábyrgrar ráðgjafar.

Höfundur er formaður fjárlaganefndar og þingmaður Vinstri grænna.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×