Lífið

Tákn­máls­túlkur Ri­hönnu slær í gegn

Bjarki Sigurðsson skrifar
Justina Miles sá um að túlka flutning Rihönnu á táknmáli. Fyrir leikinn um Ofurskálina túlkaði hún einnig lagið Lift Every Voice and Sing fyrir söngkonuna Sheryl Lee Ralph.
Justina Miles sá um að túlka flutning Rihönnu á táknmáli. Fyrir leikinn um Ofurskálina túlkaði hún einnig lagið Lift Every Voice and Sing fyrir söngkonuna Sheryl Lee Ralph. Getty/Rob Carr

Kona sem sá um að túlka hálfleiksatriði söngkonunnar Rihönnu á Ofurskálinni á táknmáli hefur slegið í gegn á internetinu í dag. Sumir hafa kallað eftir því að túlkurinn fái verðlaun fyrir frammistöðu sína. 

Hálfleiksatriði Rihönnu á Ofurskálinni hefur varla farið fram hjá neinum í dag. Þetta var í fyrsta sinn sem Rihanna kom fram á tónleikum síðan árið 2016, fyrir utan þegar hún söng eitt lag á Grammy-verðlaunahátíðinni árið 2018.

Einhverjir töldu að hún ætlaði mögulega að tilkynna nýja plötu eða að hún væri á leið í tónleikaferðalag. Svo var ekki en þess í stað greindi hún frá því að hún væri ólétt af öðru barni sínu og rapparans ASAP Rocky. 

Óléttan var þó ekki það eina við atriðið sem kom fólki á óvart heldur hefur hin tvítuga Justina Miles slegið í gegn eftir flutninginn. Hún kom þó ekki nálægt atriðinu sem flestir horfðu á í sjónvarpinu heldur sá hún um að túlka flutninginn á táknmáli. 

Miles túlkaði ekki einungis söng Rihönnu heldur dansaði hún með tónlistinni og lifði sig inn í stemninguna á vellinum. Flestir eru sammála um að atriði Rihönnu hafi verið frábært en margir hafa sagt það enn betra með Miles að túlka það.

Atriði Rihönnu á Ofurskálinni má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×