Íslenski hópurinn lenti í Tyrklandi fyrr í vikunni og kom sér fyrir við Hatay Expo svæðið í Antayka-borg. Unnið er að samhæfingu og stjórnun aðgerða ásamt heimamönnum og fólki frá Hollandi, Sviss, Austurríki og Grikklandi. Aðgerðir íslenska hópsins ganga vel og björgunarsveitarmenn frá öllum löndum eru til aðstoðar.

Erlendur lagði mat á ástand rústar, þar sem talið var að manninn væri að finna, og gerði tillögu um að vinnuvél yrði notuð til að halda opnum nokkurs konar göngum inn í rústina. Laust brak torveldaði aðgerðir töluvert, en leitarhundar voru sendir inn um göngin. Tveir björgunarsveitarmenn voru sendir inn á eftir hundunum með hlustunartæki en leitin bar ekki árangur.
Þá fóru þau Ragna Sif Árnadóttir læknir og Björn J. Gunnarsson sjúkraflutningamaður, ásamt Andra Rafni Helgasyni frá Landhelgisgæslunni, að sjúkrahúsinu í Antayka til að kanna aðstæður. Beðið er eftir færanlegu sjúkrahúsi frá Bandaríkjunum og til stendur að koma sjúkrahúsinu upp fyrir utan það, sem fyrir er. Landsbjörg greinir frá verkefnum íslenska hópsins í tilkynningu.

Björn J. Gunnarsson sjúkraflutningamaður segir ástandið slæmt.
„Amerísk hjálparsamtök eru að koma með gríðarstóran færanlegan spítala með mjög mörgum rúmum og skurðaðstöðu. Það sem við sáum á vettvangi var að spítalinn var að stóru leyti óstarfhæfur og var nánast allur kominn út á götu - út á bílaplan. Og þar var verið að flytja alls konar spítaladót og spítalabúnað í tjöld þar sem verið er að setja upp í rauninni meira heldur en fyrstu-hjálpar aðstoð, heldur hreinlega spítala í tjöldum úti á plani. Þannig að þörfin á þessari aðstoð frá Ameríkönum er mjög brýn. Þetta er mjög slæmt ástand.“