Sport

Björgvin Karl einn hinna útvöldu sem frumsýna 23.1

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Karl Guðmundsson er svakalega öflugur og hefur haldið sig í hópi þeirra bestu í heimi í langan tíma.
Björgvin Karl Guðmundsson er svakalega öflugur og hefur haldið sig í hópi þeirra bestu í heimi í langan tíma. Mynd/Instagram/bk_gudmundsson

Íslenski CrossFit kappinn Björgvin Karl Guðmundsson fær heiðurshlutverk hjá CrossFit samtökunum í ár.

Björgvin Karl er einn af fjórum frábærum CrossFit íþróttamönnum sem fá það hlutverk að kynna fyrsta hluta opna hluta undankeppni heimsleikanna í CrossFit í ár.

Björgvin Karl mun þar reyna sig fyrstur við 23.1 ásamt þeim Lauru Horvath, Gabrielu Migala og Lazar Djukic.

Öll voru þau fjögur meðal níu efstu á síðustu heimsleikum. Björgvin Karl varð þar í níunda sæti, Lazar Djukic varð í áttunda sæti, Gabriela Migala varð í áttunda sæti og Laura Horvath varð í þriðja sæti.

CrossFit samtökin fá alltaf toppfólk til að kynna æfingarnar og bjóða þar með upp á samanburð við þau bestu í faginu. Bæði í árangri sem og hvernig viðkomandi aðilar útfæra æfingarnar.

Þau fjögur munu gera það á Caja Magica leikvanginum í Madrid á Spáni 16. febrúar næstkomandi. Karlarnir keppa innbyrðis og konurnar líka.

Venjan er líka að CrossFit samtökin sýni beint frá þessum æfingum og í beinu framhaldi fær annað CrossFit fólk heimsins að reyna sig. Allir senda síðan inn æfingarnar sýnar og eftir það kemur í ljós hvar fólk stendur á heimsvísu.

Að þessu sinni um CrossFit Open einnig hafa áhrif á stöðu keppenda á hinum nýja heimslista CrossFit sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×