Körfubolti

Risaleikur Tryggva í naumu tapi Zaragoza

Smári Jökull Jónsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason átti frábæran leik í tapi Zaragoza í kvöld.
Tryggvi Snær Hlinason átti frábæran leik í tapi Zaragoza í kvöld. Vísir/Getty

Tryggvi Snær Hlinason var stigahæstur í liði Zaragoza sem tapaði naumlega gegn Tenerife eftir framlengdan leik í spænska körfuboltanum í kvöld.

Tryggvi Snær og félagar í Zaragoza tóku á móti liði Tenerife í kvöld en fyrir leikinn var lið Zaragoza í botnbaráttunni með fjóra sigra í sextán leikjum en lið Tenerife í fimmta sætinu með ellefu sigra.

Gestirnir byrjuðu betur og leiddu með átta stigum eftir fyrsta leikhlutann og níu stigum í hálfleik, staðan þá 42-33 fyrir Tenerife.

Sá munur hélst í þriðja leikhluta en í þeim fjórða fóru heimamenn að bíta frá sér. Þeir jöfnuðu metin þegar um sex mínútur voru eftir og eftir það skiptust liðin á að vera með forystuna.

Tryggvi Snær skoraði sex af síðustu átta stigum Zaragoza en eftir venjulegan leiktíma var staðan jöfn 73-73 og því varð að framlengja.

Gestirnir í Tenerife skoruðu fyrstu sex stigin í framlengingunni og þann mun náðu heimamenn ekki að brúa. Tenerife vann að lokum 87-83 og Zaragoza því enn með átta stig við botn deildarinnar.

Tryggvi Snær átti frábæran leik hjá Zaragoza í kvöld. Hann skoraði 24 stig og var stigahæstur sinna manna. Hann tók þar að auki sex fráköst og var með 31 framlagspunkt sem einnig var það mesta í liði heimamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×