Rafmyntalánveitandinn Genesis Global Capital hóf árið á því að segja upp tæpum þriðjungi starfsfólks síns og Silvergate bank, sem hefur sérhæft sig í viðskiptum með rafmyntir, tilkynnti að innistæður hefðu dregist mikið saman.
Hlutafé í Silvergate féll um meira en 43 prósent í verði eftir að viðskiptavinir tóku út meira en átta milljarða dollara af innistæðum sínum þar sem þeim var órótt eftir fall rafmyntakauphallarinnar FTX. Saksóknarar í FTX-málinu sögðu skiptadómi á miðvikudag að þeir hefðu lagt hald á bankareikninga sem tengdust kauphöllinni hjá bæði Silvergate og Farmington State-bankanum.
Silvergate ætlar að fækka starfsfólki sínu um 40 prósent og segja upp um 200 manns.
Reuters-fréttastofan segir að erfiðleika fyrirtækjanna megi rekja til falls FTX sem var tekin til gjaldþrotameðferðar í nóvember.
Sam Bankman-Fried, stofnandi og fyrrverandi forstjóri FTX, er ákærður fyrir stórfelld fjársvik, peningaþvætti og brot á lögum um framlög til stjórnmálaflokka í tengslum við gjaldþrotið. Lykilstarfsmenn fyrirtækisins eru sagðir vinna með saksóknurum sem rannsaka málið.
Þá tilkynnti dómsmálaráðherra New York-ríkis í gær að hann hefði stefnt Alex Mashinsky, stofnandi og fyrrverandi forstjóra rafmyntalánveitandans Celsius Network, og krafist þess að honum yrði bannað að stýra fyrirtæki í ríkinu.
Mashinsky er sakaður um að hafa svikið milljarða dollara út í viðskiptavinum sínum með því að markaðssetja fyrirtækið sem öruggan valkost við hefðbunda banka á sama tíma og hann lét viðskiptavini ekki vita af því að hann hefði tapað hundruð milljóna dollara á áhættusömum fjárfestingum. Celsius fór á hausinn í fyrra.
Celsius lánaði Alameda Research, vogunarsjóði í eigu Bankman-Frieds, um milljarð dollara árið 2021 og 2022. Bankman-Fried er sakaður um að hafa fært milljarðra dollara af inneignum viðskiptavina FTX til Alameda til þess að halda fyrirtækinu á floti.