Fótbolti

Vill að öll lönd heims nefni leik­vang í höfuðið á Pelé

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pelé og Gianni Infantino árið 2017 í Rússlandi.
Pelé og Gianni Infantino árið 2017 í Rússlandi. Stuart Franklin/Getty Images

Gianni Infantino, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, sagði í jarðarför hins brasilíska Pelé að hann myndi biðja allir þjóðir heims um að nefna einn leikvang í höfuðið á leikmanninum goðsagnakennda.

Pelé lést þann 29. desember 82 ára að aldri. Síðan hefur þjóðarsorg verið lýst yfir í Brasilíu og mörg hafa vottað honum virðingu sína. Pelé er talinn einn allra besti knattspyrnumaður sem uppi hefur verið. Hann varð þrívegis heimsmeistari með Brasilíu og skoraði yfir 1000 mörk á ferlinum.

Infantino mætti í jarðarför Pelé sem fór fram í Santos í Brasilíu á mánudag. Hann ræddi stuttlega við blaðamenn sem voru viðstaddir og sagði: „Við munum biðja öll lönd heimsins að nefna einn af knattspyrnuleikvöngum sínum í höfuðið á Pelé.“

Infantino hefur verið duglegur að koma með hinar ýmsu tillögur að undanförnu. Hann vill að HM verði haldið á þriggja ára fresti og þá hefur hann boðað breytt fyrirkomulag HM félagsliða. Verður einkar forvitnilegt að sjá hvernig aðildarþjóðir FIFA taka nýjustu tillögu hans.

Í apríl 2021 ætlaði borgin Rio de Janeiro að nefna hinn margrómaða Maracanã-leikvang eftir Pelé en hætti við eftir að borgarstjórinn tók það ekki í mál. Reikna má með að nafnabreytingin verði aftur á borði borgarstjórnar Rio de Janeiro á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×