Íslenski boltinn

Annáll Bestu deildar karla: Grænn var litur sumarsins 2022

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Blikar höfðu nægu að fagna í sumar.
Blikar höfðu nægu að fagna í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Besta deild karla var gerð upp í Íþróttasíld Stöðvar 2 á gamlársdag. Segja má að Breiðablik hafi stolið senunni árið 2022 en eftir að missa titilinn úr greipum sér árið 2021 kom ekkert annað til greina en að landa þeim stóra. Sumarið 2022 var grænt svo vægt sé tekið til orða.

Tekið var upp nýtt fyrirkomulag í efstu deild karla í knattspyrnu. Að lokinni hefðbundinni tvöfaldri umferð áttu efstu sex lið deildarinnar að fara í hálfgerða úrslitakeppni þar sem þau myndu mætast einu sinni og að því loknu væri ljóst hvaða lið yrði Íslandsmeistari og hvaða lið kæmust í Evrópu. Myndi fjöldi heimaleikja ráðast af því hvar liðin enduðu í töflunni - efstu þrjú liðin myndu spila þrjá heimaleiki á meðan liðin í 4. til 6. sæti myndu aðeins spila tvo.

Sama fyrirkomulag var svo hjá liðunum í 7. til 12. sæti en eftir úrslitakeppnina þar væri ljóst hvaða lið myndu falla. Fyrirkomulagið var sett upp til að búa til meiri spennu og fleiri áhugaverða leiki. Þeir urðu þó aldrei margir á toppi deildarinnar þar sem Breiðablik bar höfuð og herðar yfir önnur lið landsins, allavega í deildinni. 

Víkingar, sem unnu tvöfalt 2021, héldu nefnilega fast í bikarmeistaratitilinn sem þeir hafa nú unnið þrisvar í röð. Segja má að bikarinn og Evrópa hafi verið þeirra afrek í sumar en Víkingur endaði nefnilega í 3. sæti deildarinnar þar sem KA kom óvænt inn í toppbaráttuna. Að endingu féllu svo Leiknir Reykjavík og ÍA.

Klippa: Annáll: Besta deild karla



Fleiri fréttir

Sjá meira


×