Sigurjón Örn Þórðarson framkvæmdastjóri Kringlunnar segir þennan mikla fjölda fólks hefðbundinn. Jólaverslunin hafi vel gengið í desember.
„Við höfum náttúrulega lagt upp með það í Kringlunni að hér sé gott að koma og umhverfið allt sé hlýtt og notalegt. Þannig að okkur hefur gengið vel með það vegna þess að það má segja að hvert og eitt einasta mannsbarn á Íslandi hefur komið tæplega tvisvar sinnum í Kringluna í desember. Þannig eru tölurnar og við erum bara nokkuð lukkuleg með það,“ segir Sigurjón Örn.
Hann segir að hljóðið hafi verið mjög gott í kaupmönnum eftir óvenjugott ár í fyrra. Árið 2021 hafi verið ein stærstu „kaupmannajól“ í manna minnum. Sigurjón Örn telur að það stefni í annað eins.
„Verslun hefur kannski dreifst meira yfir á síðustu tvo mánuði ársins í kjölfar allra þessara tilboðsdrifnu viðburða í nóvember, þá er ákveðinn hluti jólaverslunar sem fer fram þá. En svo er alltaf bara ákveðinn hópur sem vill koma í hús og klára sína verslun í rólegheitum í desember.“
Fréttastofa ræddi við gesti og gangandi í Kringlunni í dag. Sumir voru á síðasta snúning en aðrir voru öllu rólegri: „Ég er á allra síðustu stundu, en ég er búinn að kaupa allar jólagjafirnar,“ sagði Þóroddur Ragnarsson og andaði léttar.
Herbert Guðmundsson var á leið sinni að kaupa síðustu gjöfina þegar fréttastofa náði tali af honum í verslunarmiðstöðinni.
„Maður getur náttúrulega ekki gert allt strax. Ég náttúrulega var að klára rosalega tónleikasyrpu, ég var á fjórtán tónleikum með Baggalúti og svo endaði ég núna með Emmsjé Gauta núna í Háskólabíói,“ sagði Herbert brattur.