Innlent

Öllum sund­laugum á höfuð­borgar­svæðinu lokað vegna bilunar

Atli Ísleifsson skrifar
Laugardalslaug verður lokuð í dag, líkt og aðrar sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu.
Laugardalslaug verður lokuð í dag, líkt og aðrar sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Vilhelm

Bilun er komin upp í Hellisheiðarvirkjun svo engin framleiðsla er á heitu vatni sem stendur. Öllum sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu verður lokað vegna þessa.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum. Þar segir að heildarframleiðslugeta á heitu vatni fyrir hitaveitu höfuðborgarsvæðisins sé skert um að minnsta kosti 20 prósent vegna bilunarinnar.

„Af þessum sökum þarf að loka öllum sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu í dag. Vonast er til að lokunin vari einungis út daginn.

Teymi frá Orku Náttúrunnar er komið á staðinn og viðgerð er hafin,“ segir í tilkynningunni.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að Ylströndinni í Nauthólsvík verði einnig lokað. 

„Gestir sundlauganna eru beðnir um að sýna því skilning að forgangsröðun á heitavatnsþjónustu við þessar aðstæður er til heimila og grunnþjónustu,“ segir í tilkynningu borgarinnar.

Uppfært: Sundlaug Seltjarnarness er áfram opin enda Seltjarnarnes með eigin hitaveitu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×