Innlent

Vilja tryggja brota­þolum sál­fræðistuðning eftir skýrslu­töku

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglustöðin við Hverfisgötu. Þolendum kynferðisofbeldi verður boðið upp á sálfræðistuðning eftir skýrslutöku með verkefni dóms- og heilbrigðisráðherra.
Lögreglustöðin við Hverfisgötu. Þolendum kynferðisofbeldi verður boðið upp á sálfræðistuðning eftir skýrslutöku með verkefni dóms- og heilbrigðisráðherra. Vísir/Vilhelm

Dóms- og heilbrigðisráðherra ætla að vinna að því að tryggja brotaþolum kynferðisofbeldis stuðning hjá sálfræðingi að lokinni skýrslutöku hjá lögreglu. Einnig ætla þeir að auka samvinnu lögreglu og heilbrigðiskerfisins um þjónustu vegna kynferðisofbeldis.

Í tilkynningu sem birt var á vef stjórnarráðsins í gær kom fram að dómsmálaráðherra hefði ákveðið að styrkja reglubundið samráð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og starfsmanna neyðarmóttöku og áfallateymis Landspítalans um þjónustu við brotaþola kynferðisofbeldis.

Samráðið snerist meðal annars um hvernig lögregla skuli standa að tilvísun sem tryggi brotaþolum stuðningsviðtal sálfræðings að lokinni skýrslutöku og miðlun upplýsinga um meðferð mála innan réttarvörslukerfisins til brotaþola.

Rannsóknarmiðstöð gegn ofbeldi við Háskólann á Akureyri gerir úttekt á árangri af samstarfinu með því að taka viðtöl við einstaklinga sem leggja fram kæru hjá lögreglu vegna kynferðisleg ofbeldis. Metin verður reynsla kærenda af skýrslutöku og stuðningsviðtali hjá sálfræðingi í kjölfarið. Einnig verður gerð úttekt á reynslu lögreglu og heilbrigðisstarfsfólks af samstarfinu.

Verkefnið er í anda aðgerðaáætlunar um bætta meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu fyrir árin 2018 til 2022 en þar kemur fram að tryggja þurfi brotaþolum viðeigandi stuðning innan kerfisins, þar á meðal sálfræðimeðferð innan heilbrigðiskerfisins eða önnur úrræði óháð búsetu og efnahag, meðal annars eftir skýrslutöku hjá lögreglu.

Vinnuhópur heilbrigðisráðherra um samræmingu verklags vegna kynferðisofbeldis á að kynna niðurstöður sinnar vinnu innan skamms, að því er segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×