Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Landsbankans. Ákvörðunin er tekin í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabanka Íslands frá 23. nóvember síðastliðnum. Þá hækkaði Seðlabankinn stýrivexti um 0,25 prósent.
Breytilegir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum eru nú 7,5 prósent. Fastir vextir nýrra óverðtryggðra íbúðalána hækka um 0,1-0,15 prósentustig og fastir vextir nýrra verðtryggðra íbúðalána hækka um 0,15 prósentustig.
Kjörvextir á óverðtryggðum og verðtryggðum útlánum hækka um 0,25 prósentustig og yfirdráttarvextir hækka um 0,25 prósentustig. Vextir á óverðtryggðum sparireikningum hækka að jafnaði um 0,25 prósentustig og vextir almennra veltureikninga hækka um 0,05 prósentustig.
Nýja vaxtataflan tekur gildi mánudaginn 12. desember næstkomandi. Breytingar á vöxtum á lánum sem falla undir lög um neytendalán eða lög um fasteignalán til neytenda taka þó gildi í samræmi við tilkynningar þar að lútandi sem sendar verða viðskiptavinum í netbanka.