Erlent

Trump boðar „mjög stóra tilkynningu“

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Flestir telja ljóst að Trump ætli sér aftur í framboð til forseta. 
Flestir telja ljóst að Trump ætli sér aftur í framboð til forseta.  AP Photo/Michael Conroy

Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti fór um víðan völl í aðdraganda kosninganna í dag og kom fram á fjöldafundum til að styðja við sitt fólk.

Á öllum þeim fundum ýjaði hann hinsvegar sterklega að því að hann myndi brátt lýsa því yfir að hann ætli að bjóða sig fram til forseta árið 2024. Á dögunum sagði hann að von væri á yfirlýsingu á fjöldafundinum í Ohio sem fram fór í gær.

Á endanum varð þó ekkert úr því að hann lýsti yfir framboði en hann boðaði þó „mjög stóra tilkynningu“ þann 15. nóvember næstkomandi. Þá ætlar hann að halda einhverskonar samkomu á heimaslóðum í Mar-a-Lago í Flórída og búast flestir við því að hann lýsi þar yfir framboði. 

Í gærkvöldi sagði hann stuðningsmönnum sínum að ef þeir vildu stöðva „eyðileggingu landsins okkar“, þá verði þeir að kjósa Repúblikana.

Flokkur Trumps þarf aðeins fimm ný sæti í fulltrúadeildinni til að ná þar völdum og aðeins eitt í öldungadeildinni. 

Fastlega er búist við því að það takist í fulltrúadeildinni og raunar gott betur, því flokknum er spáð 15 til 25 sætum til viðbótar við það sem hann hefur nú. Í öldungadeildinni er baráttan hinsvegar afar tvísýn og stjórnmálaskýrendur treysta sér ekki til að spá fyrir um á hvern veginn sú orrusta fer.


Tengdar fréttir

Kosningar hafnar í Bandaríkjunum

Milljónir Bandaríkjamanna ganga að kjörborðinu í dag. Kosið er um alla fulltrúadeild þingins, um þriðjung af öldungardeildarsætum og þá eru ríkisstjórakosningar víða, svo nokkuð sé nefnt.

Repúblikanar hagnast mjög á breyttum kjördæmum

Gengið verður til kosninga í Bandaríkjunum á morgun en kosið verður um sæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, þriðjung sæta í öldungadeildinni og ríkisstjóraembætti víða um Bandaríkin, svo eitthvað sé nefnt. Miðað við kannanir vestanhafs er útlit fyrir að Repúblikanar nái stjórn á báðum deildum þingsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×