Innlent

Sofnaði á klósettinu og vaknaði á tómum veitingastað

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar að störfum í miðbæ Reykjavíkur.
Lögregluþjónar að störfum í miðbæ Reykjavíkur. Vísir/Tumi

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst í nótt tilkynningu um að þjófavarnarkerfi veitingastaðar í miðbænum hefði farið í gang. Þar var þó á ferðinni maður sem var í starfsmannagleði með vinnufélögum sínum fyrr um kvöldið og hafði sofnað ölvunarsvefni á klósettinu.

Þegar hann vaknaði var búið að loka staðnum og fór þjófavarnarkerfið í gang þegar hann reyndi að komast út.

Lögregluþjónar virðast hafa haft í nógu að snúast í nótt og í gærkvöldi, miðað við dagbók lögreglunnar.

Þar kemur fram að ekið hafi verið á níu ára barn í Grafarholti á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Mikil hálka var á vettvangi en barnið er sagt hafa hlotið minniháttar áverka á baki, höndum og víðar. Ekki þótti tilefni til að flytja barnið á sjúkrahús.

Skömmu síðar hlaut fimmtán ára barn opið beinbrot við að detta af rafskútu í Garðabænum.

Tilkynnt var um slys á veitingastað í Breiðholti í nótt þar sem maður datt niður stiga. Hann hlaut áverka á höfði og varð meðvitundarlaus. Hann var fluttur á bráðadeild til aðhlynningar. Annar ölvaður maður slasaðist á höfði á nótt þegar hann datt af hjóli í Hlíðunum. Hann var sömuleiðis fluttur á bráðadeild.

Þá handtók lögreglan tvær erlendar konur á hóteli í miðbænum en þær eru grunaðar um fjársvik og voru vistaðar í fangaklefa fyrir rannsókn málsins. Minnst tveir menn voru handteknir vegna gruns um að þeir hefðu brotið gegn lögreglusamþykkt en báðir eru sagðir hafa verið í annarlegu ástandi og annar þeirra var einnig grunaður um líkamsárás.

Að endingu voru fjölmargir ökumenn stöðvaðir vegna gruns um ölvun og/eða neyslu fíkniefna við akstur. Einn þeirra var ekki með ökuréttindi, var með fíkniefni á sér og neitaði að gefa upp persónuupplýsingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×