Konstantin Vorontsvov, háttsettur embættismaður í utanríkisráðuneyti Rússlands, sagði í gær að Bandaríkjamenn og aðrir bandamenn Úkraínu væru að nota borgaralega gervihnetti í átökum. Hann nefndi ekki í hvers eigu umræddir gervihnettir eru.
Samkvæmt frétt Wall Street Journal er mögulegt að hann sé að tala um Starlink-gervihnattanetið sem sagt er vera Úkraínumönnum gífurlega mikilvægt. Auðjöfurinn Elon Musk bað varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna nýverið um að greiða fyrir netþjónustu Úkraínumanna því mikill kostnaður hefði fallið á fyrirtækið SpaceX, sem rekur gervihnattanetið.
Sjá einnig: Segir fjandinn hafi það og heldur áfram að greiða fyrir internetið
Fyrirtæki eins og Viasat Inc., Maxar Technologies og Planet Labs PBC hafa einnig gert samninga við bandarískar leyniþjónustur.
WSJ hefur eftir John Kirby, þjóðaröryggisráðgjafa Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, að árásum á bandaríska gervihnetti yrði svarað með viðeigandi hætti. Rússar yrðu dregnir til ábyrgðar fyrir slíka árás.
Hann sagði einnig að Rússar hefðu unnið að þróun tækni til að granda gervihnöttum.