Crist beindi kappræðunum ítrekað að því hvort DeSantis myndi sitja út allt kjörtímabilið en sá síðarnefndi kom sér ávallt hjá því að svara spurningunni.
Í eitt skipti sagði Crist: „Af hverju horfir þú ekki í augu íbúa Flórída og segir þeim að ef þú verðir endurkjörinn munir þú sitja í embætti ríkisstjóra öll fjögur augun. Já eða nei?“
Eftir nokkra sekúndna þögn svaraði DeSantis á þá leið að hann vissi að Crist vildi tala um forsetakosningarnar 2024 og Joe Biden, forseta. DeSantis sagðist þó vilja einbeita sér að því að sigra Crist.
Crist svaraði síðar og sagði þá: „Þú vilt ekki einu sinni segja hvort þú viljir vera ríkisstjóri Flórída eftir kosningarnar.“
DeSantis hefur, eins og margir aðrir frambjóðendur Repúblikanaflokksins, forðast viðtöl við fjölmiðla vestanhafs í aðdraganda kosninganna og viðburði þar sem hann gæti þurft að svara spurningum.
Politico segir kannanir sýna að DeSantis sé líklegur til að sigra Crist. Hann hafi safnað mun meira af peningum og hafi varið um fjórfalt meira en Crist í sjónvarpsauglýsingar í Flórída. Kappræðurnar hafi líklega verið besta tækifæri Crists til að ná höggi á DeSantis og óljóst sé hvort það hafi tekist.
DeSantis er 44 ára gamall Repúblikani og Crist er 66 ára gamall Demókrati, fyrrverandi þingmaður og fyrrverandi ríkisstjóri Flórída. Þeir tókust á um fleiri hluti eins og faraldur Covid, glæpi, þungunarrof, Joe Biden og það að DeSantis hafi sent um fimmtíu hælisleitendur til Marthas Vineyard í haust.
Sjá einnig: Stefna ríkisstjóra fyrir að senda þá á sumardvalareyju
Undanfarin ári hefur Flórída-ríki verið að færast til hægri, samkvæmt AP fréttaveitunni. DeSantis er talinn mjög líklegur til að bjóða sig fram til forseta fyrir Repúblikanaflokkinn og það jafnvel þó Donald Trump, fyrrverandi forseti, ákveði að bjóða sig fram aftur.
Ríkisstjórinn er talinn vilja ná öflugum sigri í Flórída og nota hann til að koma forsetaframboð sínu af stað.