Fjallað var um Hóla í fréttum Stöðvar 2 og í þættinum Um land allt en til forna var biskupssetrið í alfaraleið. Margar dreymir um að þjóðleið verði aftur um Hjaltadal með jarðgöngum.

Solveig Lára Guðmundsdóttir, fráfarandi Hólabiskup og þar áður prestur á Möðruvöllum í Hörgárdal, er í hópi þeirra sem eiga slíkan framtíðardraum og bendir inn Hjaltadalinn.
„Þegar göngin verða komin hérna úr Hjaltadalnum og yfir í Hörgárdalinn. Þá verður þetta aftur komið í þjóðbraut,“ segir Solveig Lára.
Alþingismenn kjördæmisins og sveitarstjórnir norðanlands hafa ítrekað kynnt slíkar tillögur.

„Frá fornu fari var Hólastaður bara hjartað og höfuðstaður Norðurlands. Það lágu allar leiðir til Hóla,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar.
„Við erum að horfa á það að með Tröllaskagagöngum þá náum við að stytta leiðir á milli allra helstu þéttbýlisstaða á Norðurlandi. Þú ert að þétta byggðina og búa kannski til svona þessa miðstöð Mið-Norðurlands, sem verður með þessari tengingu,“ segir sveitarstjórinn.
Nokkrar útfærslur eru nefndar, til dæmis milli Hjaltadals og Barkárdals eða Kolbeinsdal og Skíðadals.

En hversu raunhæf eru jarðgöng undir Tröllaskaga? Vegagerðin hefur sínar efasemdir.
Í tveggja ára gamalli umsögn sagði Vegagerðin að slík göng yrðu mjög löng og mjög dýr, myndu kosta á milli 50 og 70 milljarða króna, en benti í staðinn á að mun styttri göng þyrfti undir Öxnadalsheiði til að tryggja vetrarsamgöngur.
„Auðvitað eru menn líka að rannsaka göng undir Öxnadalsheiði. Þau eru líka álitlegur kostur. Ég ætla ekkert að fara í launkofa með það,“ segir Sigfús Ingi.

Sveitarstjóri Skagafjarðar setur þó Fljótagöng ofar á óskalistann.
„Af því að einfaldlega að vegurinn á milli Fljóta og Siglufjarðar um Almenninga, hann er þannig að hann getur farið hvenær sem er. Og þetta eru bara mjög brýn öryggissjónarmið sem ráða ferð þar. Þannig að þetta er mikil áhersla hjá okkur að fá þessi Fljótagöng,“ segir Sigfús.
Þáttinn um Hóla má nálgast á streymisveitunni Stöð 2+.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: