Innlent

„Stór­merki­leg niður­staða“ í nýrri könnun

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Kolbeinn Tumi Daðason les kvöldfréttir í kvöld.
Kolbeinn Tumi Daðason les kvöldfréttir í kvöld. vísir

Veruleg tíðindi eru í nýrri könnun Maskínu á fylgi við stjórnmálaflokkana, sem birt verður í kvöldfréttum Sýnar. Talsverð hreyfing virðist vera á stuðningi við flokka og breytingar frá niðurstöðum síðustu kosninga sæta tíðindum. Rætt verður við Eirík Bergmann prófessor í stjórnmálafræði í kvöldfréttunum klukkan hálfsjö, sem segir helstu niðurstöðu könnunarinnar stórmerkilega.

Ísland er útsöluvara í Norrænum samanburði hvað varðar veitingu dvalarleyfa og algjört stefnuleysi hefur ríkt í málaflokknum. Þetta segir hagfræðingur sem vann úttekt á reglum um dvalarleyfi á Íslandi. Við förum yfir málið og ræðum einnig við dómsmálaráðherra sem boðar fimm lagafrumvörp til breytinga í málaflokknum.

Þá kynnum við okkur nýja og áhugaverða rannsókn sem sýnir að svokölluð gjörunnin matvæli skaða öll helstu líffærakerfi mannslíkamans. Næringarfræðingur segir rannsóknina marka tímamót og segir það grafalvarlegt hversu mikið við innbyrðum af slíkum mat.

Auk þess verðum við í beinni frá Bæjarbíó þar sem Sóli Hólm, eða Jóli Hólm, líkt og hann kallar sig þessa dagana, er að gíra sig upp í mikla törn. Í Sportpakkanum hittum við HM-fara í kvennalandsliðinu í handbolta og í Íslandi í dag kíkjum við á nýja heimsklassa klifuraðstöðu á Akureyri.

Þetta og margt fleira á samtengdum rásum Sýnar, Bylgjunnar og Vísis klukkan 18:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×