Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í vikunni var greint frá því að einhverjir stunduðu það að fjarlægja lok af skyri sem innihélt skeið til að setja á skyrdollur sem voru hvorki með lok né skeið. Best fyrir dagsetningin er prentuð á lokin á þeim skyrdollum sem fá lok en á álfilmuna á þeim sem ekki eru með loki. Því var best fyrir dagsetningin horfin af þeim skyrdollum sem lokunum var stolið af.
Í samtali við fréttastofu segir Aðalsteinn H. Magnússon, markaðsstjóri MS, að eftir áramót verði engar minni skyrdollur með loki eða skeið. Verið er að klára birgðir af lokum og því enn nokkrar tegundir af skyri enn með skeiðum og loki.
„Lokin eru að fara af. Við erum að klára birgðir sem við áttum af gömlum lokum. Um áramót þá verða öll lok horfin. Þá verður dagsetningin prentuð á filmuna,“ segir Aðalsteinn.
Pappaskeiðarnar sem kynntar voru til leiks á síðasta ári sem staðgengill plastskeiðanna, við töluverð mótmæli, verða því eftir áramót einungis til í minnum manna.
Fjallað var um breytingarnar í fréttum Stöðvar 2.
„Þetta dettur af og við hvetjum allar verslanir til að bjóða upp á skeiðar, annað hvort fríar eða til sölu á fimm krónur eða eitthvað,“ segir Aðalsteinn.
Hann minnir á að besta leiðin til að sporna gegn plasti í umhverfinu sé að koma plastumbúðum í réttan farveg.
„Það er til farvegur fyrir plastið og fólk þarf bara að nota hann,“ segir Aðalsteinn.