Liz Truss vann leiðtogakjörið í breska Íhaldsflokknum með loforðum um miklar skattalækkanir til að örva breskt efnahagslíf. Þar eins og víða annars staðar glíma stjórnvöld við mikla verðbólgu og hækkun vaxta. Um leið og breska stjórninn kynnti efnahagstillögur sínar lá við að lífeyrissjóðir færu á hausinn vegna lækkandi verðs á ríkisskuldabréfum þannig að Englandsbanki greip inn í með stórfelldum kaupum á bréfunum.

Jón Daníelsson prófessor í hagfræði við London School of Economics (LSE) segir aðgerðirnar óraunhæfar.
„Það sem virðist hafa gerst er að breska ríkisstjórnin eins og kannski stjórnmálamenn oft eru, trúði að náttúrulögmálin ættu ekki við í Bretlandi. Kom með aðgerðir sem voru óraunhæfar. Síðan greip hið efnahagslega þyngdarlögmál við og allt hrundi niður hjá þeim. Núna er ríkisstjórnin farin að tala skynsamlega, bæði efnahagslega og pólitískt um þær aðgerðir sem þarf að grípa til,“ segir Jón.

Með öðrum orðum ríkisstjórnin hefur dregið stóran hluta aðgerða sinna til baka. Hætti fljótlega við að fella niður hátekjuskatt og virðist vera gefa undan með að hækkun framlaga til velferðarmála skuli fylgja verðbólgu en ekki hækkun launa.
Jón segir að vextir muni halda áfram að hækka töluvert með tilheyrandi áhrifum á fasteignamarkaðinn þar og á Íslandi.
„Verð á fasteignamarkaði getur farið aðfalla töluvert mikið. Því fólk er að fjármagna fasteignir með því að taka peninga að láni. Ef vextirnir fara mjög hratt upp eins og þeir eru að gera mun það hafa mjög truflandi áhrif á efnahagslífið,“ segir Jón.
Vonandi verði lendingin tiltölulega mjúk en óvissan væri mikil. Fari að halla undan fæti hjá Bretum og öðrum þjóðum muni það hafa áhrif á íslenskar útflutningstekjur.
„Við erum aðflytja út lúxus vöru. Ef það verður samdráttur í efnahagslífinu í Evrópu eða Bandaríkjunum þá minnkar náttúrlega eftirspurnin eftir lúxusvöru mjög hratt. Þannig að við myndum strax finna fyrir því ef það verður einhver alvarlegur samdráttur,“sagði Jón Daníelsson.