Fyrir leik var ljóst að um sex stiga leik væri að ræða þar sem FH myndi með sigri fara upp úr fallsæti á kostnað Leiknis þegar aðeins þrjár umferðir væru eftir af Íslandsmótinu.
„Mér fannst við spila þetta upp í hendurnar á þeim til að byrja með í fyrri hálfleik. Þar sem við vorum klaufar, vorum ekki að vinna seinni bolta. Þegar við vorum að því þá vorum við að missa þá. Þeir komu ákveðnir í þetta. Þetta var ekki að falla fyrir okkur.“
„Við vorum svolitlir klaufar. Svo tókum við alveg yfir, sterkur karakter að koma til baka 2-0 undir, minnkum muninn og erum með leikinn í höndunum okkar. Svo kemur hálfleikur og þeir spiluðu vel í seinni hálfleik og setja tvö góð mörk.“
FH-ingar byrjuðu leikinn betur og settu gestina undir pressu sem skilaði sér í tveimur mörkum. Eftir annað markið þá tóku Leiknismenn við sér og sýndu sitt rétta andlit.
Þrátt fyrir tap var Brynjar ánægður með sitt lið
„Þetta var bara þannig leikur að bæði lið voru með hátt spennustig og lögðu mikið í þetta. Þetta bara svona féll meira fyrir þá fannst mér. Þannig hvort að við eigum skilið eitthvað meira úr þessu, alveg eins. FH-ingar voru flottir í dag. Ég er samt ánægður líka með liðið mitt.“
Leiknismenn voru sjálfum sér verstir í kvöld og misstu boltann oft á tíðum á slæmum stöðum á vellinum. Sérstaklega í byrjun. Fyrirliðin hefði viljað byrja leikinn betur.
„Mæta til leiks, það var einhver skjálfti í mönnum. Mér finnst eiginlega bara öll mörkin vera þannig að við erum að missa hann klaufalega og þeir að refsa. Það er svona helsti munurinn.“