KR lenti 2-0 undir gegn Víkingum en kom til baka og jafnaði metin í 2-2 áður en lokaflautið gall. Stutt er síðan liðin mættust í Mjólkurbikarnum. Þar lenti KR 3-1 undir en náði að jafna metin áður en Víkingar skoruðu tvívegis undir lok leiks og unnu 5-3. Nú beið KR með það að jafna metin þangað til leiktíminn var svo gott sem runninn út.
Það vakti eins og áður sagði mikla athygli að Kjartan Henry væri ekki í leikmannahóp liðsins en mikið hefur verið rætt um stöðu hans hjá KR að undanförnu.
Eftir leik ræddi Rúnar Kristinsson, þjálfari liðsins, við Fótbolti.net. Þar sagði hann hreint út að hann hefði þurft að skilja þrjá leikmenn eftir utan hóps og lét þannig hljóma að Finnur Tómas Pálmason, sem var nýverið valinn í U-21 árs landslið Íslands, og Kristinn Jónsson væru ekki frá vegna meiðsla heldur hefðu þeir einfaldlega ekki verið valdir að þessu sinni.
„Þú spyrð ekki af hverju Kristinn Jónsson er ekki í hóp eða af hverju Finnur Tómas er ekki í hóp en það er bara sama ástæða. Ég þurfti að skilja þrjá eftir og þetta var valið mitt í dag,“ sagði Rúnar í viðtalinu sem sjá má hér.
KR endaði í 5. sæti Bestu deildar karla eftir hefðbundna deildarkeppni með 31 stig að loknum 22 umferðum. Nú tekur við úrslitakeppni þar sem KR mætir Breiðablik, Víking, Val, KA og Stjörnunni.