Atli er uppalinn í KR og lék á sínum tíma 20 leiki með yngri landsliðum Íslands. Hans eini leikur í efstu deild kom er KR mætti Val í Frostaskjóli sumarið 2009. Unnu gestirnir frá Hlíðarenda 4-3 sigur og lék Atli ekki fleiri leiki í efstu deild, það er þangað til á sunnudagskvöld.
Á ferli sínum hefur Atli spilað fyrir Hauka, Hvöt KFG, KV, Reyni Sandgerði, Smára og nú Leikni. Atli var lengst af hjá KV og átti stóran þátt í að liðið fór alla leið upp í næstefstu deild árið 2014. Þá var Halldór Árnason, aðstoðarþjálfari Breiðabliks, þjálfari KV.
Atli var í raun hættur og hafði ekkert spilað af viti síðan 2018 er Leiknir R. hafði samband síðasta vor og fékk hann til að vera hinum unga Viktori Frey Sigurðssyni til halds og traust. Atli sló til og hefur setið á bekknum í nær öllum leikjum liðsins í sumar.
Viktor Freyr fékk hins vegar högg í sigurleiknum gegn KR og gat því ekki staðið vaktina er botnlið Bestu deildarinnar heimsótti toppliðið. Atli steig þá inn og lék sinn fyrsta leik í efstu deild frá árinu 2009.
Atli kom engum vörnum við er Mikkel Qvist stangaði boltann í netið eftir rúmlega hálftíma og undir lok fyrri hálfleiks fengu heimamenn vítaspyrnu er Ísak Snær Þorvaldsson féll í teignum. Fyrirliðinn Höskuldur, sem er öllu jafna einkar öruggur á punktinum, var lesinn sem opin bók og staðan því aðeins 1-0 í hálfleik þökk sé Atla.
Í síðari hálfleik gengu Blikar þó frá leiknum og unnu 4-0 sigur. Það verður þó seint hægt að kenna markverði Leiknis um hvernig fór. Eftir leikinn eru Blikar áfram á toppi Bestu deildarinnar en Leiknismenn sitja sem fastast á botni deildarinnar.
Hinn reyndi markvörður gestanna fékk þó mikla ást á samfélagsmiðlinum Twitter sem og Kjartan Atli Kjartansson og félagar í Stúkunni fóru yfir vörsluna. Sjá má það helsta af Twitter hér að neðan sem og vörsluna í spilaranum neðst í fréttinni.