Sport

Fær ekki að ferðast til New York og verður ekki með á Opna bandaríska

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Novak Djokovic verður ekki með á Opna bandaríska risamótinu í tennis.
Novak Djokovic verður ekki með á Opna bandaríska risamótinu í tennis. Simon Bruty/Anychance/Getty Images

Serbneski tenniskappinn Novak Djokovic segir að hann muni ekki geta ferðast til New York þar sem Opna bandaríska risamótið í tennis fer fram í næstu viku og mun hann því ekki taka þátt á mótinu.

Opna bandaríska risamótið hefst á mánudaginn, en eitt þekktasta nafn tennisheimsins mun ekki taka þátt. Síðan í október á seinasta ári hefur óbólusettum einstaklingum verið bannað að heimsækja Bandaríkin, en Djokovic er einmitt óbólusettur gegn kórónuveirunni.

Djokovic fékk ekki tækifæri til að verja titil sinn á Opna ástralska risamótinu í janúar á þessu ári þar sem honum var vísað úr landi sökum þess að hann var ekki bólusettur.

Þessi 35 ára tenniskappi tryggði sér sinn 21. risatitil þegar hann sigraði Wimbeldon mótið í seinasta mánuði og er því aðeins einum risatitli á eftir Rafael Nadal sem hefur unnið flesta í sögunni. Hann missir þó af tækifærinu til að jafna metið í næastu viku.

Hann hafði vonast eftir því að fá að taka þátt, en birti færslu á Twitter-síðu sinni í dag þar sem hann staðfestir að hann muni ekki fljúga til New York til að taka þátt í mótinu.

Djokovic var þó á lista yfir keppendur á Opna bandaríska síðastliðinn mánudag. Þann 30. júlí birti hann einnig færslu á samfélagsmiðlum sínum þar sem hann sagðist vera að æfa eins og ef hann væri að fara að keppa á Opna bandaríska.

Bandaríska heilbrigðisstofnunin CDC hefur undanfarnar vikur endurskoðað ýmsar reglur er varða óbólusetta borgara Bandaríkjanna. Raglur er varða óbólusetta ferðalanga virðast þó enn vera í gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×