Fréttablaðið greinir frá þessu en mennirnir réðust á manninn á tjaldsvæði í bænum Rødhus Klit á norðurhluta Jótlands í Danmörku.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var árásin gerð eftir misheppnaða ránstilraun en maðurinn dvaldi á tjaldsvæðinu í húsbíl. Þeir kýldu hann, spörkuðu í hann og skáru hann með eggvopni í andlitið, handlegg og fótlegg.
Manninum er nú haldið sofandi í öndunarvél á sjúkrahúsi en hann er með brot á höfuðkúpu, kjálka, rifbeinum og alvarlega áverka á lungum.
Fréttablaðið segir árásarmennina vera 43 og 46 ára gamla en þolandinn er 56 ára gamall. Mennirnir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 2. september en þeir neita báðir sök.