Innlent

Skáld­skapur um hin­segin líf og reynslu sé pólítísk að­gerð

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Ásta Kristín segir starf bókmenntafræðinga sem skoði hinsegin verk hafa tekið breytingum. Mynd er fengin af vef Borgarbókasafnsins.
Ásta Kristín segir starf bókmenntafræðinga sem skoði hinsegin verk hafa tekið breytingum. Mynd er fengin af vef Borgarbókasafnsins. Kristinn Ingvarsson

Lektor í íslenskum samtímabókmenntum við Háskóla Íslands fagnar þeim jákvæðu breytingum sem hafa orðið á útgáfu hinsegin bókmennta en segist óttast afturför í þeim efnum. Hún segir skerðingu tjáningarfrelsis hinsegin fólks hafa áhrif á skáldverk.

Viðtal við Ástu Kristínu Benediktsdóttur lektor birtist á vef Borgarbókasafnsins en þar segir hún að meira sé um hinsegin bókmenntir en oft áður. Minna sé um það að rithöfundar þurfi að skrifa undir rós til þess að fela hinsegin þemu.

Þegar minna hafi verið skrifað um hinsegin málefni á augljósan máta hafi starf bókmenntafræðinga oft snúist um það að rýna í efni og finna tengingar við hinseginleika, vísbendingarnar hafi ekki endilega legið augum uppi. Nú skipi stærri sess að skoða félagslegt hlutverk bókmenntanna.

„Bæði þurfum við að leita að bókunum sjálfum og höfundum og síðan þegar við erum komin með það þá þurfum við oft að grafa á milli línanna, túlka, finna tákn og svo framvegis,“ segir Ásta.

Ásta segir það ekki sjálfgefið að jákvæð þróun í útgáfu hinsegin bókmennta muni verða áfram næstu ár. Skáldskapur hafi alltaf verið mikilvæg tjáningarleið fólks sem er jaðarsett í samfélaginu. Skáldskapur um hinsegin líf og reynslu sé pólítísk aðgerð.

„Við þurfum að halda áfram að skrifa og gefa út hinsegin skáldverk. Það er bara hluti af þeirri baráttu sem við verðum að halda áfram á næstu árum og áratugum. Við þurfum að halda áfram að skrifa um hinsegin líf og hinsegin reynslu einfaldlega til að minna á hún er til og á rétt á sér og hún er sýnileg og verður ekki þögguð niður,“ segir Ásta.

Viðtal Borgarbókasafnsins við Ástu má lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×