Innlent

Ó­venju­legir smáskjálftar reyndust sprengingar

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Hinir meintu skjálftar voru í grennd við Bláa lónið.
Hinir meintu skjálftar voru í grennd við Bláa lónið. Vísir/Vilhelm

Skrýtin skjálftahrina við Bláa lónið í dag reyndust vera sprengingar vegna framkvæmda HS Orku á svæðinu. Upplýsingafulltrúi segir miður að ekki hafi verið látið vita að sprengingarnar færu fram í dag.

Fyrr í dag var greint frá að nokkrir smáskjálftar hefðu mælst við Bláa lónið. Náttúruvársérfræðingar á Veðurstofu Íslands sögðu þá að um óvenjulega skjálfta hafi verið að ræða.

Í raun voru nýframkvæmdir á vegum HS Orku í gangi í grennd við lónið. Að sögn Birnu Lárusdóttur, upplýsingafulltrúa HS Orku, stóð til að sprengja vegna framkvæmdanna í næstu viku. 

„Það vildi ekki betur til en svo að verktaki sem er að vinna að þessu verki var að sprengja fyrir nýjum dælubrunni. Hann hafði gefið okkur upplýsingar um að þetta væri í næstu viku en svo ákvað hann að fara í þessar framkvæmdir í dag án þess að gera okkur viðvart,“ segir Birna.

Því hafi ekki verið hægt að láta alla vita með réttum hætti. 

„Okkur þykir miður að þetta hafi komið upp á og munum hér eftir reyna að tryggja að svona gerist ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×